Sagnir - 01.06.2009, Blaðsíða 35
Sagnir, 29. árgangur
íris Gyða Guðbjargardóttir
Konur, kristni og kristin trúarrit
Áhrif kristínna trúarrita á sjálfsmynd kvenna og hugmyndir
um hlutverk þeirra á 19. öld
Flest eigum við okkur einhverja siðferðilega fyrirmynd.
Sú fyrirmynd er sett á háan stall og erfitt getur reynst að
feta í fótspor hennar. Kristin trú hafði afgerandi áhrif
hvað varðar mótun siðferðilegra fyrirmynda í íslensku
samfélagi á 19. öld. Sigurður Gylfi Magnússon hefur sagt
að í tiltölulega einhæfu hugmyndafræðilegu samfélagi
hafi hin íslenska kirkja hafi: gífurlega mótandi áhrif á
siðferði almennings. Vel skipulögð kirkja eins og sú
íslenska var sérstaklega sniðin að því hlutverki að veita
almenningi siðferðilega leiðsögn og styrk.1 Trú hafði
mikil áhrif á líf karla og kvenna en hún gegndi tvíbentu
hlutverki í lífi kvenna. Annars vegar viðhélt boðskapur
trúar og trúarlegra rita hefðbundnum valdahlutföllum
á milli kynjanna. En á hinn bóginn fundu konur styrk í
trúnni við erfiðar aðstæður.
Kirkjan, húslestur og trúarlegir textar á
19. öld
Kristin trú og kirkja voru helstu áhrifavaldar á hugarfar
kvenna, hið íslenska sveitasamfélag var samofið kristnum
boðskap og gildum sem kenndi konum hvert hlutverk
þeirra var og hvernig þær ættu að sinna því á sem bestan
máta. Frá unga aldri var stúlkum kennt að efast elcki um
vald Biblíunnar og annarra trúarlegra rita, boðskapur
ritanna ýtti óumdeilanlega undir hlýðni við húsbónda
og kirkju. Einn helsti mælikvarði á útbreiðslu og festu
kristni á nítjándu öld og fram á þá tuttugustu er meðferð
almennings á trúarlegum textum. Fólk ólst upp við
kristna texta sem brúkaðir voru heima við eða lesnir
í kirkju á helgidögum. Kristinn texti heyrður, lesinn
og mæltur af munni fram hafði óhjákvæmilega áhrif á
hugarheim íslendinga.2
Kirkjan hafði ýmsar leiðir til að breiða út boðskap sinn.
Tvær áhrifaríkustu leiðirnar voru kverlærdómurinn og
húslestrar. Kverið þurftu öll börn að læra utan að fyrir
fermingu og reyndist það flestum erfitt viðureignar.
Um var að ræða utanbókarlærdóm sem miðaðist lítt við
skilning á viðfangsefninu. Barnalærdómskverið boðaði
að hlýðni við veraldleg og andleg yfirvöld væri hin æðsta
dyggð. Firæðsluáróður var óspart notaður til að innræta
ungdómnum hlýðni við Guð.3
Húslestrar voru lesnir á kvöldvökum. Form þeirra var
líkt hvarvetna um landið, helgihald kirkjunnar var haft
til fyrirmyndar og því var uppbygging húslestra æði
líkt formlegri messu. Trúarboðskap var haldið að fólki
daglega með þessum hætti, húsbændur ýttu kristinni trú
meðvitað að heimilisfólki og styrktu þar með vald sitt og
um leið vald kirkjunnar.4 Yfirleitt var það húsbóndinn
sem sá um lestur en fyrir kom að húsfreyjur sæju um það
verk. Yfirráð húsbóndans yfir lestrinum veitti honum
vald yfir orðinu, hann réði hvað var lesið og á hvaða
máta.5 Húslestur einkenndist af guðrækniritum ýmis
konar, slík rit voru þýdd, skrifuð, túlkuð og gefin út af
kirkjunnar mönnum. Þau voru því mikilvæg stjórntæki
kirkjunnar. Veraldleg rit voru lesin í einhverju mæli en
kristin rit voru þó vinsælust til aflestrar út alla 19. öldina.6
Með húslestrunum færðu valdhafar kirkjunnar lögmál
Guðs sem hafið er yfir efasemdir nær fólki.7 Ætla má að
með húslestrum hafi vald kirkjunnar fest vel í sessi, erfitt
var fyrir ungar, óharðnaðar stúlkur að leggja mat á þann
boðskap sem haldið var að þeim. Þær hafa tekið öllu því
sem stóð í hinum helgu bókum og guðrækniritum sem
sannleika sem elcki bæri að efast um. I sendibréfum og
æviminningum segja konur frá upplifun sinni af húslestri
í bernsku. Mörgum leiddist hinn síendurtekni boðskapur
sem hafður var í hávegum í trúarritunum og ekki mátti
efast um.
Vídalínspostilla og Péturspostilla, grunnur
íslensks trúarlífs á 19. öld
Óvíst er að nokkur ein bók hafi haft eins mótandi og
langvarandi áhrif á íslenskt þjóðlíf og Vídalínspostilla.
Ef litið er til rannsókna á útbreiðslu bóka á 19. öld er
auðséð að postillan ber höfuð og herðar yfir önnur rit.
Áhrifa hennar gætir alla 18. og 19. öld og jafnvel enn
lengur.8 Hún gefur upplýsingar um tíðaranda og viðhorf
höfundar ásamt því að vera mikilvæg heimild um viðhorf
til kvenna og hlutverks þeirra. Því má segja að postillan sé
33