Nýtt Helgafell - 01.04.1959, Side 21
RÍKISVALD OG FRELSI
15
svo víðtækar ráðstafanir verður að af-
greiða á mjög skömmum tíma, því að ella
kemur til óviðráðanlegrar spákaup-
mennsku eða stöðvunar viðskiptalífsins.
í öðru lagi er ekki nema um tvennt að
ræða fyrir þingið, að samþykkja tillögurn-
ar í heild eða hafna þeim, þar sem þing-
menn hafa sjálfir enga möguleika til að
gera breytingartillögur, nema samþykki
ríkisstjórnarinnar komi til. Hún ein hefur
þá sérfræðilegu aðstoð og upplýsingar í
höndum, er gerir samningu heildaráætl-
unar af þessu tagi mögulega, og í þeirri
áætlun hlýtur hvert atriði að vera öðru
háð, svo að hver röskun getur haft í för
með sér, að allt fari úr skorðum. Samning
svona áætlana er þar að auki geysilega við-
kvæmt pólitískt mál, og þegar ríkisstjórn-
in er búin að ná þolanlegu jafnvægi milli
allra þeirra pólitísku afla, sem hún þarf
að taka tillit til, er um að gera að gefa
hvergi eftir um hársbreidd, því að þá
mundu allir, sem áður var samið við, rísa
upp á afturfæturna. Vegna þess, hve öll
þessi samningagerð er erfið, er það freist-
andi fyrir ríkisstjórnina að halda sem
flestum upplýsingum um grundvöll þeirra
leyndum, svo að hún geti ein skorið úr
því, hvaða leiðir séu færar og hverjar ekki.
Með því styrkir hún samningsaðstöðu sína
bæði gagnvart hagsmunasamtökum og Al-
þingi. Hitt er óneitanlegt, að afleiðing alls
þessa er, að lýðræðisleg áhrif þings og
þjóðar á hinar mikilvægustu ákvarðanir
þverra stórlega.
Það er annað einkenni varðandi meðferð
efnahagsmála á undanförnum árum, að
mjög víðtækt úrskurðarvald um stjórn
þjóðarbúskaparins hefur færzt í hendur
ríkisstjórnarinnar og þeirra stofnana, sem
á vegum hennar starfa, án teljandi aðhalds
af hálfu Alþingis. Þetta hefur gerzt eink-
um með tvennu móti. í fyrsta lagi hefur
sú löggjöf, sem Alþingi hefur samþykkt
um efnahagsmálin, yfirleitt verið mjög
ófullkomin, það er að segja hún hefur varla
verið annað en rammi, en innan hans hef-
ur ríkisstjórninni verið gefið vald til þess
að ákveða mörg hin mikilvægustu mál með
setningu reglugerða eða öðrum stjórnarat-
höfnum. Hefur Alþingi þannig raunveru-
lega afsalað sér verulegum hluta löggjafar-
valdsins í hendur ríkisstjórnarinnar. í
öðru lagi hefur haftakerfið orðið til þess,
að ríkisstjórnin og umboðsmenn hennar
hafa fengið örlagaríkt vald yfir athöfnum
einstaklinga og atvinnufyrirtækja, svo að
við liggur, að hún hafi afkomu þeirra í
höndum sér. Meðal annars hefur þetta leitt
til þess, að kjósendur hafa orðið hættu-
lega háðir velvild hinna pólitísku flokka,
svo að ekki er vafi á, að þeir telja sig ein-
att tilneydda að láta hagsmuni sína sitja
í fyrirrúmi fyrir pólitískum skoðunum.
Flokkarnir verða þannig meira og meira
að samtökum um hlutdeild í fríðindum
þeim, sem ríkisvaldið hefur yfir að ráða,
en hið víðtæka valdsvið þess gefur flokks-
foringjum tækifæri til að herða að mönn-
um sultarólina eða stinga upp í þá dúsu,
eftir því sem hentar hverju sinni.
Þá er það glöggt merki um breytta
stöðu Alþingis gagnvart ríkisstjórninni, að
ár frá ári kveður minna og minna að þeim
frumvörpum, sem alþingismenn sjálfir
semja og bera fram á þingi. í stað þess
flytja þeir þingsályktunartillögur, þar sem
þeir biðja ríkisstjórnina auðmjúklega að
láta semja lög um eitt eða annað, og minn-
ir það óþægilega á bænarskrár þær, sem
títt var að senda konungi fyrr á tímum.
Löggjafarstörfin eru því sífellt minnkandi
þáttur í störfum þingmanna, en í staðinn
kemur alls kyns erindrekstur og milliganga
milli kjósenda og ríkisstjórnarinnar og
þeirra mörgu stofnana, sem menn þurfa að
leita umbunar hjá.
Þessi þróun hér á landi er ekki eins-
dæmi. Meðal allra lýðræðisþjóða hefur
löggjafarvaldið færzt 1 vaxandi mæli í
hendur ríkisstjórnarinnar, eftir því sem
verksvið ríkisvaldsins hefur stækkað. Hins
vegar hefur þetta að nokkru leyti verið
bætt upp með því, að löggjafarþingin hafa