Læknablaðið - 15.04.2007, Blaðsíða 49
ÞING SKURÐLÆKNA, SVÆFINGA- OG GJÖRGÆSLULÆKNA / ÁGRIP ERINDA
Ályktun Hér er í fyrsta skipti sýnt fram á tilvist CART-peptíðs
í mennskri görn. í eðlilegri görn sést mikið af CART-peptíði,
aðallega í taugafrumum í vöðvalagi en aðeins einstaka í sjúkri
görn. Það ásamt því að CART-peptíð er til staðar nálægt öðrum
þekktum taugaboðefnum (NOS og VIP) gefur til kynna að
CART-peptíð sé eðlislægt (intrinsic) peptíð í meltingarvegi og
hafi þar hlutverki að gegna. Enn er þó óljóst hver áhrif CART-
peptíð hefur á starfsemi garnarinnar.
E-08 Þráðlaus sýrustigsmæling í vélinda hjá börnum
Anna Gunnarsdóttir, Pernilla Stenström, Einar Arnbjörnsson
Anna.Gimnarsdottir@med.lu.se
Barnaskurðdeild háskólasjúkrahússins í Lundi, Svíþjóð
Inngangur: Sýrustigsmæling í vélinda er mikilvægur liður við
greiningu á vélindabakflæði hjá börnum. Þráðlaus mæling með
BRAVO™ hylki (Medtronic Synetics) er að öllum líkindum
sjúklingavænna og veldur minni óþægindum meðan á mælingu
stendur, samanborið við hefðbundna mælingu með slöngu frá
nefi og niður í vélinda. Þetta hefur þó lítið verið rannsakað hjá
börnum. Á barnaskurðdeild háskólasjúkrahússins í Lundi hefur
þráðlaus sýrustigsmæling í vélinda með BRAVO™ hylki tíðkast
síðan í maí 2005.Tilgangur þessarar rannsóknar var að meta ár-
angur þessarar mæliaðferðar hjá börnum.
Efniviður og aðferðir: Aftursýn rannsókn þar sem litið var á
öll börn sem gengust undir þráðlausa sýrustigsmælingu í vél-
inda á tímabilinu maí 2005-júní 2006. Gerðar voru 30 mælingar
með BRAVO™ hylki á 29 börnum (20 drengir, 9 stúlkur).
Meðalaldur barnanna var 7,9±3,7 ár (bil 1-14). Öll börnin voru
með einkenni sem gáfu grun um vélindabakflæði. Hylkinu var
komið fyrir í vélinda, tveimur hryggjarbolum fyrir ofan þind
(metið í gegnumlýsingu). í sömu svæfingu var gerð maga- og
vélindaspeglun með sýnistöku frá vélinda. Sýrustigsmælingin var
áætluð í 24 klst.
Niðurstöður: Fimm sjúklingar voru með sýnilega bólgu í vélinda.
Sýrustigsmælingin var gerð í 18,5-24 klst pH <4 var í 0,2-29,4% af
mælitímanum (9,2±12,2) með heildarfjölda súrra bakflæðisgúlpa
6-121 (57±32). De Meester score var sjúklega hátt hjá 18 börnum
(17,3-93,2) og innan eðlilegra marka hjá 11 börnum (1,3-13,9).
Þrjú börn gengust seinna undir aðgerð vegna bakflæðis (fund-
oplication). Þrjú börn fundu fyrir óþægindum við kyngingu á
mælitímanum og í tveimur tilfellum voru vandræði með skrán-
ingu vegna lélegs sambands við skráningardós. Hjá einu barni
festist BRAVO™ hylki ekki sem skildi við vélindaslímhúð.
Ályktun: Sýrustigsmæling í vélinda með þráðlausu BRAVO™
hylki hjá börnum hefur gengið mjög vel á okkar deild. Engir al-
varlegir fylgikvillar hafa komið fyrir og börnin hafa þolað hylkið
vel án óþæginda. Þráðlaus sýrustigsmæling í vélinda verður
notuð hjá börnum með grun um vélindabakflæði í framtíðinni.
E-09 Árangur af ísetningu lyfjabrunna á Landspítala á eins
árs tímabili
Bergþór Björnsson', Pétur Hannesson2, Agnes Smáradóttir’, Páll Helgi
Möller'
bergthb@gmail. com
'Skurölækningadeild, 2myndgreiningardeild og 3lyflækningadeild
krabbameina, Landspítala
Inngangur: ísetning og notkun lyfjabunna hefur aukist á
Landspítala undanfarin ár. Erlendar rannsóknir sýna að tíðni
bráðra sem og síðkominna fylgikvilla er lág. Þetta hefur ekki
verið rannsakað áður hér á landi og því var tilgangur þessarar
rannsóknar að kanna notkun lyfjabrunna á Landspítala auk tíðni
fylgikvilla og bera saman við niðurstöður erlendra rannsókna.
Efniviður og aöferðir: Rannsóknin var afturskyggn. Allir
sjúklingar yfir 18 ára aldri, sem fengu lyfjabrunn á almennri
skurðlækningadeild Landspítala við Hringbraut á tímabilinu
september 2005 til ágúst 2006, voru teknir inn í rannsóknina.
Skráðar voru upplýsingar úr aðgerð, niðurstöður lungna-
myndatöku eftir ísetningu svo og klínískar upplýsingar meðan
á notkun stóð. Farið var yfir myndrannsóknir allra sjúklinga,
bæði lungnamyndatöku eftir ísetningu og síðari viðeigandi rann-
sóknir. Rannsóknin var samþykkt af vísindasiðanefnd Land-
spítala og Persónuvernd.
Niðurstöður: Á tímabilinu voru settir 128 lyfjabunnar í 121
sjúkling. Heildarfjöldi daga sem sjúklingar voru með lyfjabrunn
var 32.290. Konur voru 85 en karlar 44. Meðalaldur sjúklinga
var 57 (18-86,4) ár. Algengasta ástæða ísetningar var fyrirhuguð/
yfirstandandi krabbameinslyfjameðferð (n=121). Algengustu
greiningar voru brjóstakrabbamein (34), ristil- og endaþarms-
krabbamein (31), eitlakrabbamein (12) og briskrabbamein (8). í
14 tilfellum náði slanga ekki inn í efri miðbláæð og í 19 tilfellum
var slanga niður undir hægri gátt eftir ísetningu. í 6 tilfellum lá
slanga niður í hægri gátt og í þremur tilfellum færðist slanga
þangað síðar. Snemmkomnir fylgikvillar við ísetningar voru 6
ástungur á slagæð (án alvarlegra afleiðinga), 2 loftbrjóst sem
hvorugt greindist fyrir útskrift og í einu tilfelli blæðing sem
leiddi til enduraðgerðar. Eftir 101 ísetningu komu ekki fram
neinir síðkomnir fylgikvillar. í þeim 27 (21%) tilfellum þar sem
síðkomnir fylgikvillar komu fram var um að ræða blóðtappa
(n=8), sýkingu (n=5) sem var staðfest með ræktun í 4 tilfellum,
snúning á dós (n=4), stíflu (n=4), tilfærslu á legg (n=3), loftbrjóst
(n=2) og slöngurek (n=l). Blóðtappar greindust að meðaltali 68
dögum eftir ísetningu og sýkingar 69 dögum eftir ísetningu.
Ályktun: Tíðni fylgikvilla við ísetningu og notkun lyfjabrunna
á Landspítala er hærri en þekkt er úr erlendum rannsóknum.
Ástæður þessa geta verið margvíslegar m.a. hvort lyfjabrunnar
séu settir í veikari sjúklinga hér á landi. Tegund lyfjabrunna
sem notaðir eru gæti einnig skipt máli svo eitthvað sé nefnt. Því
er þörf á frekari rannsóknum á notkun lyfjabrunna yfir lengra
tímabil á Landspítala.
Læknablaðið 2007/93 313