Læknablaðið - 15.04.2007, Blaðsíða 119
HUGLEIÐING HÖFUNDAR / EINU SINN VAR LÆKNIRI
Einu sinni var læknir
Þegar ég var að alast upp austur á Seyðisfirði um
og eftir miðbik síðustu aldar var í kaupsstaðnum
einhleypur maður sem gekk undir nafninu Egill
læknir. Vísast var hann einhvers son en það skiptir
ekki máli fyrir þessa sögu. Starfsheitið þjónaði sem
eftirnafn. Egill læknir var Egill læknir og annað
var aukaatriði. Hann var lengi eini læknirinn árið
um kring en fór stundum til útlanda á vetrum.
Fékk hann þá einhvern fyrir sig á meðan og var
sólbrúnn og sællegur er heim kom. Sagt var að
hann sigldi á skipi um suðurhöf á meðan við sátum
í skugga hárra fjalla og biðum sumars. Þetta með
öðru skapaði honum sérstöðu í plássinu.
Er skemmst frá því að segja að Egill skar upp
og saumaði saman, fjarlægði brunnar tennur
(þegar tannlækni vantaði), setti saman brot, tók
á móti börnum, bólusetti og gerði annað sem til
féll. Sjálfsagt voru honum mislagðar hendur í ein-
hverju, stundum illilega en hann var læknirinn
okkar í blíðu og stríðu. Hann bragðaði ekki áfengi
á þorrablóti í vikunni áður en yngsti bróðir minn
(Stefán læknir á Hvolsvelli) fæddist. Sagði að frú
Arnþrúður ætti von á sér og bjóst við erfiðri fæð-
ingu.
Þessi heiðursmaður bjó í gamla Bjarka, hús-
inu sem Þorsteinn Erlingsson skáld og ritstjóri
reisti árið 1897. Húsinu sem Seyðfirðingar rifu
niður sjötíu árum síðar ásamt trjágróðri öllum og
malbikuðu yfir því þá vantaði bílastæði. Sá gjörn-
ingur fór fram skömmu eftir að þeir ruddu gamla
Apótekið frá 1890 en það var með upphaflegum
innréttingum. Þá var síldarævintýrið mikla að hefj-
ast og athafnamenn sunnan úr Reykjavík vantaði
bragga undir síldarstúlkur.
I Bjarka tók Egill læknir á móti sjúklingum
á stofu áratugum saman. Og þá er ég komin að
meginmálinu. Þegar sjúklingurinn gekk inn byrj-
aði læknirinn að tala. Hann sagði ekki bara einu
sinni hvað væri að heldur mörgum sinnum. Þegar
sá sjúki fór út var hann með tilfellið á tæru. Sumir
sögðu reyndar að karlinn væri of fljótur á sér.
Hvað sem öðru leið lét hann mann ekki velkjast í
neinum vafa.
Oft verður mér hugsað til Egils þegar ég sit
fyrir framan lækni sem þegir lon og don en hefur
þá nærveru að ég fer að tala í sótthitakenndu fári
í von um að hann taki eftir mér. Fái hann til að
skilja að ég sé komin út af ákveðnu erindi en ekki
bara til að horfa á hann sitja á stólnum hummandi.
Stundum talar hann líka einhvern latínublending
en hann hjálpar mér lítið. Eg man aldrei til að Egill
læknir segði neitt á útlensku. Samt hlaut hann að
kunna hana, maðurinn margsigldur í suðurhöfum.
Hann amaðist heldur ekki við okkur krökkunum.
Egill kom upp í hugann þegar ég fór með son
minn til sérfræðings fyrir allmörgum árum. Við
urðum að gera okkur ferð til Reykjavíkur með
Akraborg og hafa yngri bróður hans með. Ef
ég man rétt var haugasjór á leiðinni yfir Flóann
en drengirnir þokkalega sprækir eftir volkið. Er
skemmst frá því að segja að læknirinn, eldri herra,
skoðaði sjúklinginn samanbitinn. Síðan reif hann
upp hurðina og vísaði honum út ásamt litla bróður
en ég sat eftir á stólnum, hlustaði á hann humma
og tala sinn latínublending á meðan hann skrifaði
aðskiljanlega lyfseðla.
I dag hefði ég lamið hann. Svo hefði ég skellt
hurðum og kannski rifið húsið líka. En þarna sat
ég og barðist við að vera kurteis um leið og ég bað
til Guðs að drengirnir mínir yrðu enn í bygging-
unni þegar ég kæmi út. I þessu sambandi er rétt
að komi fram að strákarnir voru ekki óþægari en
gengur og gerist. Annar er í dag tölvunarfræðingur,
hinn lögfræðingur og talið sama og sannað að þeir
gátu setið kyrrir. Eg er að vona að það sé einsdæmi
að læknir hendi sjúklingi sínum út í miðju kafi...
Svo var það hér á dögunum að ég átti að koma
í eftirlit á Borgarspítalann sem einu sinni var. Þar
tók á móti mér ungur, brosmildur læknir sem byrj-
aði að spjalla áður en ég settist niður. Mál hans var
ekki áberandi latínuskotið, hann var heldur ekki
að flýta sér en útskýrði allt vel. Þá gerðist það. Ég
var ekki lengur á efri hæð í gímaldi inni í Fossvogi
heldur komin í Bjarka milli hárra fjalla austur þar.
Og gamla öryggiskenndin kom yfir mig. Ég fór
heim með fullvissuna um að allt yrði þetta í lagi.
Við næstu gatnamót rifjaði ég upp hlýjar
móttökur karla og kvenna á slysa- og bráðadeild í
ársbyrjun. Flestir voru læknarnir ungir. Gat verið
að þeir kynnu minni latínu en hinir eða höfðu þeir
farið á samskiptanámskeið? Ég hafði ekki komist
að niðurstöðu þegar langdregið flaut bílsins fyrir
aftan vakti mig upp úr hugleiðingunum og ég slapp
yfir á grænu ljósi.
Kristín
Steinsdóttir
Kristín Steinsdóttir hefur veriö
í fremstu röö íslenskra barna-
og unglingabókahöfunda
frá því að hún sendi frá sér
sína fyrstu bók, Franskbrauð
með sultu, árið 1987 og hlaut
fyrir hana íslensku bama-
bókaverðlaunin. Þá hefur hún
skrifað leikrit í samvinnu við
Iðunni systur sína. Kristín
hefur fengið viðurkenningu
IBBY-samtakanna fyrir verk
sín, og fyrir bókina Engill í
Vesturbœnum Barnabókaverð-
laun Fræðsluráðs Reykjavíkur,
Norrænu bamabókaverðlaunin
vorið 2003 og Barna- og
unglingabókaverðlaun Vest-
norræna ráðsins ári síðar.
Kristín hefur skrifað tvær
skáldsögur fyrir fullorðna sem
hafa hlotið afar góða dóma,
Sólin sest að morgni (2004) og
Á eigin vegum (2006).
Læknablaðið 2007/93 383
L