Tímarit Máls og menningar - 01.11.1974, Síða 80
Tímarit Máls og menningar
né minna en byltingar í eðlisfræði, sem hafa kennt mönnum rækilega að
forðast ofmetnað, enda hafa eðlisfræðingar æ síðan haft yfrið nóg af veiga-
miklum óleystum gátum að glíma við.
Snúum okkur nú að einni slíkri byltingu, sem virðist hafa fengið Bloch og
andvígismönnum hans nokkurrar áhyggju. Hér á ég við svonefnda sleammta-
frœði sem mótaðist á tímabilinu frá aldamótum fram á þriðja tug aldar-
innar. Ymsar niðurstöður hennar eru býsna framandi og torskildar og hafa
valdið heimspekingum miklum heilabrotum, eins og grein Blochs ber vitni
um, en því miður fer oft illa þegar menn skilja illa en vilja endilega túlka.
Ein slík niðurstaða skammtafræðinnar, sem hefur hlotið rækilega staðfest-
ingu í tilraunum, er sú að smáar efnisagnir (t. d. öreindir) hegða sér við
vissar aðstæður eins og öldur eða ölduknippi. Á sama hátt er hegðun t. d.
ljóss, sem var áður talið geislun eða öldur, stundum eins og um efnisagnir
sé að ræða. Sumir andstæðingar Blochs virðast hafa túlkað þessi nýmæli svo
að „gengið væri af efninu dauðu“, en slíkt er tilhæfulaust; t. a. m. hrófla
þau ekki við hugmyndum okkar um stórsæja hluti (hluti sem sjást með ber-
um augum) og hugtakið efnisögn stendur óhaggað í ýmsum tilvikum.
Onnur niðurstaða skammtafræðinnar ætti að vera heimspekingum ekki
síðra viðfangsefni en tvíeðli efnis og geislunar, en það eru þær breytingar á
orsakalögmálinu sem skammtafræðin leiðir af sér. Um síðustu aldamót átti
orsakahyggja eða nauðhyggja, eins og Guðmundur Finnbogason hefur kall-
að hana (sbr. skýringar hér að framan), miklu fylgi að fagna meðal vísinda-
manna. Samkvæmt henni má segja fyrir bæði um framtið og fortíð allra
hluta, ef við þekkjum stöðu og hraða allra efnisagna á einhverri stundu með
nægilegri nákvæmni. Þessi fullyrðing er ekki mikils virði nema unnt sé að
mæla stað og hraða með eins mikilli nákvæmni og vera skal, enda gengu
nauðhyggjumenn út frá því sem vísu. I skammtafræði er hins vegar sýnt
fram á að því eru takmörk sett, hve nákvæmlega við getum mælt stað og
lxraða agnar samtímis; ef við viljum ákvarða staðinn fullkomlega, verðum
við að fórna allri vitneskju um hraðann, og öfugt. I tengslum við þetta kem-
ur svo til önnur breyting: í stað þess að segja nákvæmlega fyrir um óorðna
liluti í heimi öreindanna getum við skv. skammtafræðinni aðeins sagt til um
líkur á einstökum atburðum. Gott dæmi um þetta er geislavirkt atóm: við
vitum að það sundrast fyrr eða síðar og getum sagt fyrir um líkindin til þess
að sundrunin gerist á einhverju tilteknu tímabili, en ekki nákvæmlega hvenær
hún verður. Ég legg áherslu á að hér er ekki um að ræða tæknilega erfið-
leika, sem verði yfirstignir með fullkomnari mælitækjum, heldur undirstöðu-
70