Tímarit Máls og menningar - 01.12.1979, Síða 63
Um Réttarhöld Kafka
lagður að jöfnu við lögin sjálf. En þetta er einmitt það klækjabragð sem allir
skriffinnar nota til að auka við vald sitt.
En það er meira blóð í kúnni. Presturinn heldur áfram: „Þar sem hann
(dyravörðurinn) er bundinn þjónustustarfi sínu, þótt einungis sé við fordyri
laganna, er hann ómælanlega stærri en nokkur sá sem rásar frjálst um heiminn ...
Það eru lögin sem hafa sett hann í þessa stöðu; að efast um virðingu hans
jafngildir því að draga lögin sjálf í efa.“ Það er engin furða þótt K. hristi
höfuðið og svari því til að hann geti ekki fallist á þetta sjónarmið „því sé það
viðurkennt hljótum við að viðurkenna sannleiksgildi alls þess sem dyravörðurinn
segir. Þú hefur hins vegar sjálfur sannað nógsamlega að það kemur ekki til
greina." Mér virðist svar prestsins setja fram í samþjöppuðu og sígildu formi
grundvallarkennisetningu allra kerfa: ,„Nei,‘ sagði presturinn, ,það er engin
nauðsyn að viðurkenna að allt sé satt, maður verður bara að viðurkenna það sem
nauðsyn.‘“
Það skelfilega hyldýpi sem staðfest er milli „sannleika" og „nauðsynjar“
opinberast hér lesandanum i allri sinni vídd. Hvað gera þeir menn eins og Jósep
K. sem annars vegar eru ófærir eða ófúsir að beygja sig fyrir „nauðsyninni“,
vitandi að henni er ásköpuð tilhneiging til að teygja sig út fyrir endamörk síns
umráðasvæðis, og vita það hins vegar að þeir eru ófærir um að lifa sönnu lífi í
heimi sem er margflókinn, sundraður og framandlegur? Þeir segja það sem K.
sagði er hann svaraði prestinum: „.Dapurleg niðurstaða. Hún breytir lyginni í
algilda reglu‘.“
(í þremur málsgreinum sem upphaflega fylgdu hér á eftir en höfundurinn
strikaði út síðar verður K. það ljóst að „hann hafði verið að tala um þjóðsögu og
fella um hana dóm og vissi samt ekkert um uppruna hennar eða heimildir og var
jafnóviss um allar túlkanir". Hann lætur yfirbugast af myrkrinu í dómkirkjunni
og harmleikur reynslu hans er dreginn saman í þessum orðum: „Qftar en einu
sinni, þótt hann vissi fullvel hversu tilgangslaust það var, hafði hann litið upp
og myrkur, endalaust myrkur, hafði bókstaflega hvolfst yfir hann úr öllum
áttum. ,Það er alls staðar svo mikið myrkur/ sagði Jósep K. og lagði hönd yfir
augun eins og hann verkjaði af áreynslunni við að finna rétta leið.“)
I bókinni dregur Kafka úr yfirgripsmiklum fullyrðingum Jóseps K. „K.
sagði þetta með þunga,“ bætir hann við, „en þetta var ekki hans endanlegi
dómur.“ En Jósep K. finnur til þess í sinni „dapurlegu niðurstöðu“ að mál hans
er tapað. Eftir það standa honum aðeins tvær leiðir opnar: undirgefni eða
uppreisn.
Kafka var enginn byltingarmaður. Hans annað sjálf, Jósep K., beygir sig af
437