Tímarit Máls og menningar - 01.09.1983, Side 18
Tímarit Máls og menningar
boðnám (programmed learning). Dæmigert fyrstastigsnám er þegar dýr eru
tamin og fólk þjálfað til mjög afmarkaðra starfa, einkum afar sérhæfðra
tæknistarfa þar sem mikið liggur við að verkin séu unnin á aðeins einn veg.
Þululærdómur er algengt form fyrstastigsnáms.
Nám á öðru stigi Batesons einkennist af breytingum á skilgreiningunum
eða forsendunum sem fyrstastigsnámið gengur út frá sem gefnum. Slíkt nám
er t. d. fólgið í að breyta hugmyndum, skapa eitthvað sem ekki hefur verið
lært áður, álykta, alhæfa á nýjan leik o. s. frv. Dæmigert annarsstigsnám er
t. d. þegar nemandi uppgötvar reglu sem kennarinn styðst við eða samhengi
milli ákveðinna og áður lærðra þekkingaratriða (fyrsta stig).
Nám á þriðja stigi Batesons tekur til breytinga á grundvallarviðhorfunum
að baki þeim hugmyndum sem við er fengist í annarsstigsnámi og teknar eru
sem gefnar í fyrstastigsnámi. Bateson taldi að aðeins maðurinn (af þekktum
dýrum) væri fær um þriðjastigsnám. Slíkt nám felur í sér gagnrýni og
sjálfsgagnrýni, þ. e. að skoða sjálfan sig og umhverfi sitt frá ólíkum
sjónarhólum.
Segja má að fyrstastigsnám sé fólgið í að læra það sem nemandinn lítur á
sem staðreyndir, annarsstigsnám sé að læra það sem hann skoðar sem
hugmyndir og þriðjastigsnám tengist eigin heimsmyndum og grundvallar-
viðhorfum. Þróunin verður þannig, að í huga einstaklingsins verður eins
konar vitsmunalegur árekstur (þversögn) sem hann leysir úr með því að fara
frá lægra til hærra námsstigs. Ef honum tekst ekki að leysa úr þversögninni
(andstæðunum) á þann hátt, er hætt við að hann byrgi hana með sjálfum sér
og einkennin birtist í formi streitu. Einkum eiga margir erfitt með að fara frá
öðru stigi til þriðja stigs. Annarsstigsnám er afar fastmótað og venjubundið
hjá flestum einstaklingum. Engu er líkara en að við höldum oft dauðahaldi í
annað stigið og flækjum sjálf okkur í vef réttlætinga og sjálfsblekkinga
fremur en að líta í eigin barm og leysa vandamálið með þriðjastigsnámi.
Þverstæður sem við stöndum andspænis eða uppgötvum geta vissulega leitt
til geðrænna vandamála ef við getum ekki leyst úr þeim, litið á þær sem
andstæður sem unnt er að leysa ef kafað er dýpra. Hjá þeim sem komast yfir
þessi vandamál verður þriðjastigsnám samsömun við eigin persónu í órjúf-
anlegum tengslum við umhverfið, eitthvað sem nefna mætti á íslensku sjálf-
semd (individuality) sem er allt annað hugtak en einstaklingshyggja (indi-
vidualism).
Möguleikar mannsins til menntunar eru tengdir hæfileikum okkar til að
nema auðveldlega (eftir að ákveðinn þroski barna er tekinn út) á öðru stigi
og að geta lært á þriðja stigi. Vel menntaður er sá maður sem ræður við nám
á öllum þessum þremur námstigum og er fær um að tengja þau saman í
gagnvirka heild. Kennarar og aðrir sem tengjast skólanum og hafa áhrif á