Tímarit Máls og menningar - 01.09.1983, Blaðsíða 52
Tímarit Máls og menningar
Annað sem mér finnst gefa gagnrýni John Holt slagkraft er áhugi hans á
þjóðfélagsmálum og hvernig hann tengir hann skoðunum sínum á skólum
og kröfum sínum um menntun. “Education for the Future” nefnist ein
greinin í áðurnefndri bók. Þar ræðir hann þær kröfur sem hann vill gera til
skólans í baráttu fyrir friði, jafnrétti, frelsi og virðingu fyrir verkkunnáttu,
skapandi starfi og vel unnu verki yfirleitt. Þau skrif minna um margt á Paul
Goodman.
Enn er John Holt þó ekki búinn að gefa skólann upp á bátinn og setur
fram í þessari bók um hinn „seinfæra“ skóla (The Underachieving School)
ýmsar hugmyndir um hvernig hægt sé að bæta hann — eða gera hann
þolanlegri. Auk þess sem áður var minnst á um aukið frelsi nemenda til að
velja sér viðfangsefni vill hann afnema fyrirmæli um ákveðið námsefni, próf
og einkunnir, skyldumætingar, einkarétt kennara á að kenna í skólum og að
próf úr skóla veiti réttindi til að mega vinna ákveðin störf. Áhyggjufullum
kennurum og foreldrum sem spyrja hvort slíkt og þvílíkt geti ekki leitt til
þess að börnin læri ekki eitthvað sem þarf nauðsynlega að kunna í lífinu
svarar John Holt að bragði: „Hafið engar áhyggjur; ef þau þurfa raunveru-
lega að kunna það í lífinu þá munu þau læra það hvort sem er. . . . Rétti
tíminn til að læra eitthvað er þegar maður þarf á því að halda.“
Af því sem hér hefur verið rakið má væntanlega ljóst vera að við lok
sjöunda áratugarins er hugur John Holt til þess hvers vænta megi af skólum
og skólagöngu orðinn býsna blendinn. Það er eins og ekki vanti nema
herslumuninn til að hann kunni að gefa upp alla von um þá. E. t. v. hafa kynni
hans af Ivan Illich ráðið mestu um hve þess var skammt að bíða að svo færi.
Skólinn á ekki rétt á sér: Ivan Illich
Ur hvers konar umhverfi sprettur svo maðurinn sem tekur af skarið og færir
fram þungvæg rök fyrir afnámi skóla og nauðsyn þess að leita nýrra,
mannúðlegri, gagnlegri og ódýrari menntunarleiða? Hvert sækir hann vit
sitt, reynslu og ástríðu? Hér á undan hef ég reynt að varpa nokkru ljósi á
þann akur sem búið var að sá frækornum efans í. Það var komin uppskeru-
tíð. Eins og jafnan þegar nýjar hugmyndir hasla sér völl er hæpið að eigna
þær einni persónu. Hugmyndir manna fæðast í gagnkvæmum samskiptum
eins og nýtt líf í ríki náttúrunnar. I inngangi bókarinnar Deschooling Society
segir Illich frá samskiptum sínum og samræðum við fjölda manna, þ. á m.
Paul Goodman, John Holt, Peter Berger, Paulo Freire og Everett Reimer.
Ivan Illich fæddist í Austurríki 1926 en nam guðfræði, heimspeki og sögu
í háskólum á Italíu og í Þýskalandi. Eftir að hann fluttist til Bandaríkjanna
1951 starfaði hann sem prestur hjá fátækum söfnuði í New York og síðan
sem konrektor við kaþólskan háskóla í Puerto Rico. Eftir það fer athygli
402