Tímarit Máls og menningar - 01.09.1984, Blaðsíða 80
Tímarit Máls og menningar
eins þótt þau séu ekki nýjar uppfinningar (nýnæmið felst t. d. iðulega í
frjórri endurvinnslu eldri hefða). Ernst Bloch lauk fyrrnefndri ritgerð sinni í
Das Wort með því að segja að enn hefði ekki verið hafist handa við að rækja
arfleifð expressjónismans. Meir en 40 árum síðar skrifar Jurgen Habermas
að verki módernismans sé enn ekki lokið.19 Það má svosem velta vöngum
yfir því hvað felist hér í orðinu að „ljúka“, en ljóst er að Habermas telur
verk þetta vera andóf gegn ríkjandi borgaramenningu Vesturlanda.
Módernismi og hugmyndafrtedi
Aður en ég vík frekar að eðli þess andófs vil ég minnast lítillega á aðra
meginspurningu sem deilan um expressjónismann vekur. Eg á við þá
staðhæfingu Kurella, Lukács og nokkurra annarra þátttakenda að einhver
einhlít tengsl séu á milli expressjónismans og fasískrar hugmyndafræði. Slík
afstaða til módernismans fékk byr undir báða vængi í lævi blöndnu andrúms-
lofti fjórða áratugarins, og draugurinn hefur gengið aftur annað slagið æ
síðan.
I fyrrgreindri bók sinni, Wider den mijlverstandenen Realismus ræðir
Lukács að vísu ekki lengur eins ítrekað um fasisma, en hann ræðst þó af
heift á heimsmynd þá sem hann telur búa í módernismanum í heild.
Módernisminn boði tómhyggju og angist sem og andsögulega, úrskynjaða
og sjúklega afstöðu til lífsins. Bak við kenningar Lukács virðist búa sá
djúpstæði misskilningur, sem æði oft skýtur upp kollinum, að módernísk
verk, sem í allri formgerð sinni birta okkur „neikvæða“ mynd af sundurbút-
uðum og firrtum veruleika nútímans, muni jafnframt (og sé jafnvel ætlað að)
leiða til örvilnunar og uppgjafar gagnvart þessum veruleika. Er ekki öllu
líklegra að sú mynd hvetji til andófs gegn þeim veruleika? Það veltur
greinilega á viðtökum verksins, og verður fátt fullyrt um viðrögð lesenda
hér, þó svo ég hafi meiri trú á „jákvæðu“ andsvari lesenda en Lukács. —
Þessi bók Lukács er skrifuð á dögum kalda stríðsins og þar telur hann
togstreitu módernisma og realisma ekki lengur endurspegla svo mjög valið
milli fasisma og sósíalisma, heldur val milli stríðs og friðar.
En aðrir tóku upp þráðinn þar sem Lukács skildi við hann, m. a. tveir af
þekktustu bókmenntafræðingum Vesturlanda. I bók sinni The Sense of an
Ending tekur Frank Kermode fyrir fjóra enskumælandi módernista, T.S.
Eliot, Yeats, Pound og Wyndham Lewis, sem allir voru miklir hægrimenn
og þrír þeir síðastnefndu aðdáendur fasisma. Kermode leitast við að sýna
fram á hvernig höfundar þessir afneiti veruleikanum og þróun sögunnar, en
reyni þess í stað að byggja sér tímalaus og goðsöguleg, módernísk kerfi er
samsvari hinum ströngu formhugmyndum fasismans20 (sbr. gagnrýni Klaus
430