Tímarit Máls og menningar - 01.09.1984, Blaðsíða 84
Tímarit Mdls og menningar
Slíkur jöfnureikningur finnst mér stundum ganga of langt, eins og best
sést á ritsmíðum þeirra manna sem þykjast finna fasíska hugmyndafræði í
módernískum formum. Hins vegar tel ég að höfundur geti með formgerð-
arnýbrigðum raskað á hollan máta hefðbundinni skírskotun tákna, skír-
skotun sem skiptir kannski töluverðu máli fyrir heimsmynd þá sem að baki
býr. Táknin geta verið einstök orð eða svipmót heils verks. Tökum „einfalt“
dæmi úr íslenskum hversdegi; ímyndum okkur lesanda sem rekst á orðið
„frelsi“ í Þjóðviljagrein og annan sem les það á síðum Morgunblaðsins.
Táknmyndin er sú sama, en hvað með táknmiðið, merkingarvísun orðsins?
Orðinu er mjög líklega ætlað að vekja all ólíkar hugmyndir í huga þessara
tveggja lesenda og bregðist þeir „rétt“ við verða þessar hugmyndir í raun að
tveim nýjum táknmyndum, með táknmið sem tengja þær ólíkum, að hluta
til andstæðum félagslegum og hugmyndafræðilegum skoðunum. Tengsl
táknmyndar og táknmiðs eru ekki aðeins „ónáttúruleg“ og hefðbundin eins
og F. de Saussure hélt fram, þau eru heldur alls ekki bein eða einhlít. Um
hugtakið frelsi og merkingu þess ætti að standa nokkur styrr; þetta ætti að
vera „óþægilegt“ orð og notkun þess meðvituð. Það má vera að sú sé og
raunin, en slíkt er þó andstætt málnotkun samfélagsins; til að auðvelda
boðskipti lokum við fyrir mótsagnakenndar skírskotanir tákna, svæfum þau
eða gerum þau „saklaus“, látum sem skírskotun þeirra sé sjálfvirk og einhlít.
Skáldskapur er hæfari flestum öðrum boðskiptaleiðum til að vekja táknin,
afhjúpa mótsagnir þeirra og óstýrilæti, og framandgera þau til að bregða
ljósi á hlutverk þeirra og á þann veruleika sem þau miðla okkur. Módernist-
ar hafa oft leitast við að nýta sér möguleika skáldskapar til að „leggja í rúst
og endurnýja hið félagslega táknkerfi," eins og Julia Kristeva orðar það.26
Þetta held ég megi teljast eitt af raunsæjum hlutverkum skáldskapar, þó að
ég telji raunsærra að tala um að „laska“ táknkerfið en að leggja það í rúst
(sbr. orð mín um hefðina hér að framan).
Mig langar til að tengja þessar hugleiðingar kenningum Roland Barthes í
S/Z sem e. t. v. er merkasta afkvæmi strúktúralismans í bókarlíki. Barthes
setur upp tvenndarkerfi og tilnefnir annars vegar „lestrartexta“ en hins
vegar „skriftartexta“.27 Lestrartextar (t. d. hin hefðbundna skáldsaga) byggj-
ast á viðteknu táknkerfi sem lesandi hefur eða telur sig hafa full tök á. I
vissum skilningi hefur þessi texti þegar verið lesinn fyrir hann og hann getur
horfið inn í verkið. Þetta samræmist algengri stöðu okkar sem þolenda
gagnvart hefðbundnum táknakerfum og boðskiptaleiðum samfélagsins.
Kannski getur ekkert verk verið fullkominn skriftartexti eins og Barthes sér
hann, en hann er skyldur framandgervingu formalistanna og Brechts. Skrift-
artextinn truflar sjálfan sig í sífellu, skilur eftir í verkinu göt sem lesandi þarf
sjálfur að „skrifa“ í, jafnframt því sem textinn raskar viðteknum tengslum
434