Tímarit Máls og menningar - 01.09.1984, Blaðsíða 85
Baráttan um raunsaið
táknmyndar og táknmiðs og setur spurningamerki við hefðbundna skír-
skotun.
Nú mætti ætla að þar með hefði verið skapað það bil milli verks og við-
takanda þar sem fram fer gagnrýnin hugsun um mál og samfélag. Ekki er
það nú alltaf raunin. Ef hætta er á að hefðbundin verk fleyti áfram þolanda-
legri skírskotun, þá er kannski jafn mikil hætta á að menn álykti að
módernísk verk eigi sér alls enga skírskotun til ytri veruleika. Sú afstaða býr
því miður oft að baki þeirra vinsælda er módernismi hefur notið sem rann-
sóknarefni í háskólum Vesturlanda og þá iðulega í anda nýrýninnar. I stað
þess að takast á hendur hið ögrandi verkefni að kanna röskuð tengsl verks
og veraldar, einbeita gagnrýnendur og fræðimenn sér oft að „innra sam-
ræmi“ textans, hinni „listrænu heild“ hans eða öðru sem einkennir „sjálf-
stæðan málheim“ hans.28 I musteri akademíunnar er módernisminn iðulega
hvítþveginn, þar hlýtur hann fyrirgefningu synda sinna í borgaralegu sam-
félagi. Einstöku fræðimenn, með Ortega y Gasset í broddi fylkingar,29 hafa
jafnvel látið í ljós mikinn fögnuð yfir meintri „afmennskun" listarinnar sem
módernisminn hafi komið til leiðar með því að kljúfa listaverkið frá veru-
leikanum. Athyglisvert er að Lukács og Ortega y Gasset eru sammála um að
þetta sé grunneðli módernismans; á þessum forsendum hlýtur módernism-
inn síðan fordæmingu þess fyrrnefnda en lof þess síðarnefnda. Vart þarf að
taka fram að ég álít þessar forsendur alrangar.
Ef afstaða Ortega y Gasset sýnir hvernig þeir viðtakendur sem einblína á
fagurfræði módernismans leiðast út í eins konar „hlutgervingu" listarinnar,
þá má segja að lagðar hafi verið fleiri gildrur fyrir hann. Það er ein af mót-
sögnum kapítalismans að um leið og hann leitast við að endurframleiða í
sífellu grundvallarafstæður sínar (og klæða þær jafnframt í umgjörð „nátt-
úrulegrar" hefðar; láta eins og þær séu hið eina eðlilega), ýtir neyslukerfi
hans sífellt undir „þörf“ fólks fyrir það „nýjasta nýja“. I nægilega stórum
samfélögum geta þá framandgerving og nýbrigði módernismans farið að
gegna því hlutverki að „framleiða" varning fyrir hópa sem halda á lofti
innantómri kröfu um nýnæmi; sem vilja fyrst og fremst fá að sjá eitthvað
framandi, hvað svo sem það er. Við slíku er kannski ekkert hægt að segja;
við höfum lært nógu mikið af reynslunni til að vita að ekki borgar sig að
þenja brjóst og segja: Þetta er ekki list. Maður veit nefnilega aldrei hvaðan
listin kemur.
Módernismi — realismi
Eigi það við rök að styðjast að módernismi sé í uppreisn gegn ríkjandi boð-
skiptahefðum samfélagsins og leiti burt frá þeim, þá er einnig skiljanlegt að
435