Tímarit Máls og menningar - 01.09.1984, Blaðsíða 89
Baráttan um raunsaið
hafnar í nýjum textatengslum. Sú spurning hefur undanfarið verið mjög í
brennidepli bókmenntafræðinnar hvort textar takmarki eða hefti merkingu
sína og þá hvernig, eða hvort viðtakendur geti farið með hana að eigin vild.
Þó svo ég álíti að hið síðara sé fjarri lagi mun ég ekki glíma við þessa erfiðu
spurningu hér, en bendi á að túlkun texta er ekki „saklaus" fremur en
textinn sjálfur, og oft vilja viðtakendur hreinlega að textinn hafi einhverja
ákveðna merkingu, ekki síst ef hann er af einhverjum orsökum talinn sérlega
mikilvægur. Þegar kannaðar eru viðtökur á verkum Brechts má sjá hvernig
hann hefur (a. m. k. að mínu áliti) orðið fyrir barðinu á slíkri meðferð,
sjálfur kenningasmiður hinnar pólitísku framandgervingar, sem ætíð lagði
mikla áherslu á að merking og boðskapur verka sinna færi ekki á of mikið
flakk. Allir vilja eiga hann; í Austurevrópu er hann gerður að dyggum
sósíalrealista í anda Flokksins, og á Vesturlöndum eru viðhafðar ýmsar
kúnstir til að hægt sé að kyngja honum. Akafasti matreiðslumaðurinn er
kannski hinn kunni leiklistargagnrýnandi Martin Esslin. Hann telur stjórn-
málaskoðanir Brechts vera sálfræðilegan þátt í verkum hans; þær hafi fyrst
og fremst gefið honum þann tilfinningalega og skáldlega innblástur sem
þurfi til að skapa svo mikil leikverk; gildi verkanna sé hins vegar alveg óháð
sjálfri pólitíkinni í þeim.32
Með þessu móti mætti að sjálfsögðu aðhæfa hvers konar pólitísk verk
ríkjandi viðhorfum og hugmyndafræði. En þetta er einmitt það sem er sífellt
að gerast á einn eða annan hátt í borgaralegu samfélagi okkar, sama hvort
um er að ræða pólitískan boðskap verka eða verk sem víkja frá hefðbundn-
um boðskiptaleiðum (að sjálfsögðu gerist þetta víðar en í bókmenntum og
listum). Við verðum að horfast í augu við menningu þar sem til reiðu er
tómarúm sem innbyrðir hvers konar andóf af listrænum toga; andófið getur
oft auðveldlega orðið hluti af ríkjandi táknkerfi samfélagsins án þess að
valda minnstu röskun. Slík aðlögun fer fram á viðtökustigi textans, og það
er því ekki síst hér sem baráttan um raunsæið þarf að fara fram, sama hvort
um er að ræða módernísk eða hefðbundin verk (þar með talin eldri verk).
Viðtökur verka felast ekki hvað síst í átökum um merkingu þeirra, átökum
sem eru ekki aðeins persónuleg, heldur líka félagsleg og hugmyndafræðileg.
Það þarf því að fá viðtökur í auknum mæli upp á yfirborðið; við þurfum að
gera þær að meðvituðum þætti verksins. Fátt mun sýna betur hið samfélags-
lega eðli bókmennta, því við þurfum ekki aðeins að forðast að láta skrifa
textann fyrir okkur án þess að hafa þar meðvitað hönd í bagga; við megum
heldur ekki gefa öðrum frjálsar hendur við að semja veruleikann fyrir
okkur.
439