Tímarit Máls og menningar - 01.05.1985, Síða 9
Gunnar Harðarson
Trönurnar fljúga
LJm bókagerð íslenskra myndlistarmanna
I fyrstu bók Sigurðar Pálssonar, Ijóð vega salt, er kafli sem ber yfirskriftina
„örstyttur“. Þar er meðal annars að finna eftirfarandi texta:
taka hvíta dúfu undir áhrifum svefnlyfja. halda á henni í lófunum, hausinn
veltur til þegar fingurnir reisa hann upp til þess að skoða hann. skilja hana svo
eftir á gangstéttinni í fyrstu snjókomu haustsins. þegar alhvítt er orðið og
frostið harðnandi, þá sést ekki hvar dúfan liggur í hvítri breiðunni. síðan fara
áhrif svefnlyfsins minnkandi og loks rankar hún við sér og flýgur upp úr hvítri
breiðunni og fyrir skemmstu hætt að snjóa.1
Hætt er við að margur mundi ekki hika við að kalla þennan texta forskrift
að gjörningi (performans) eða viðburði (event) og flokka til myndlistar
fremur en kalla hann ljóð í viðteknum skilningi. Atburðurinn sjálfur og
myndrænir eiginleikar hans eru hér augsýnilega í fyrirrúmi en ekki stíllinn,
og engin tilraun er gerð til þess að beita líkingum eða myndhverfingum né
leika á merkingu orða svo sem títt er í ljóðlist. Hvort ber þá heldur að skoða
þennan texta sem myndlist eða ljóðlist? Því er til að svara, að á síðustu
áratugum hafa mörk listgreina orðið á ýmsan hátt óljósari en fyrr. Upp hafa
sprottið ný afbrigði listsköpunar sem liggja á mörkum viðtekinna listgreina.
Dæmi um þetta er einmitt gjörningurinn svokallaði sem er á mörkum leik-
listar og myndlistar en er þó jafnan talinn til hinnar síðarnefndu. En það eru
ekki einungis ný afbrigði listsköpunar sem hér eiga í hlut, heldur geta
jafnvel viðteknar listgreinar leynt á sér svo sem textinn hér að ofan ber vitni
um. Sumir hafa gengið svo langt að tala ekki um margar, sjálfstæðar
listgreinar, heldur aðeins um eina skapandi listgrein sem beinist í fjölmarga
mismunandi farvegi. Nýlistin svokallaða er samkvæmt þessu ekki aðeins
nýstefna á einu sviði eða í einni grein listar, heldur felur hún í sér allt aðra
heildarhugmynd um list og listsköpun en menn eiga að venjast. Það er í
sjálfu sér ekkert nýmæli að skáld dragi teikningu á blað eða að myndlistar-
maður yrki ljóð. Mörk listgreinanna hafa alltaf verið ótvíræð eftir sem áður.
En sé alls ekki ljóst hvort skáldið hafi verið að yrkja ljóð eða skapa myndlist
horfir málið öðruvísi við og hefðbundnar skilgreiningar missa marks. En
skáldin eru ekki ein um að henda gaman að hrekklausum lesendum. Mynd-
143