Tímarit Máls og menningar - 01.05.1985, Blaðsíða 33
Ilmur af nafni rósarinnar
einn og hinn sami í Sókratesi og Xanþippu kallast hluthyggja (realism), en
málamiðlunarleiðin sem telur hið altæka búa í hugsuninni kallast hughyggja
(conceptualism).
Ef skyggnst er í verk þeirra Abelards og Ockhams og annarra þátttakenda
rökræðunnar, gæti við fyrstu sýn virst sem hér sé einungis um afmarkaðar,
tæknilegar spurningar að ræða, sem svörin við þeim skipti álíka miklu máli
fyrir afganginn af veröldinni og svarið við því hvort orðin „sem“ og „er“ séu
í raun og veru fornöfn. Svo er þó ekki, og málið horfði ekki heldur þannig
við þátttakendum í rökræðunni. Nafnhyggja Ockhams er hluti af
heimspekilegri kenningu um veröldina sem er einhver sú heilsteyptasta sem
um getur. Þessi heimspeki er lokapunkturinn í skólaspeki miðalda, sem ekki
bar frjóan ávöxt eftir daga Ockhams. Skólaspeki miðalda var tilraun til að
setja fram heilsteypta veraldarsýn. Efniviður hennar var næsta margbrotinn:
staðhæfingar Biblíunnar og kristin trú eins og hún var túlkuð af kirkjufeðr-
unum, einkum heilögum Agústínusi; ennfremur guðfræði mótuð af
platónskum og nýplatónskum viðhorfum sem hámiðaldamenn tóku í arf frá
kirkjufeðrunum og kristnum heimspekingum fornaldar og ármiðalda eða
fengu að láni hjá heiðingjum, annaðhvort Grikkjunum sjálfum eða arabísk-
um heimspekingum; og síðast en ekki síst kenningar Aristótelesar. Þessi
efniviður hafði blandast á ýmsa lund þegar hann kom í hendur skólaspek-
inganna á hámiðöldum. Til dæmis var nýplatónisminn, sem var voldug
hreyfing á síðasta hluta fornaldar, þegar í öndverðu mótaður af hugmynd-
um Aristótelesar auk hugmynda Platóns. Ekki bætti úr skák að framan af
eignuðu skólaspekingar Aristótelesi ranglega tvö rit sem í raun voru eftir
tvo helstu kenningasmiði nýplatónismans, hina svonefndu Gudfrœði Aristó-
telesar sem reyndist vera eftir Plótínos (205?—270) og Orsakahókina (Liher
de causis) sem reyndist vera eftir Próklos (410? —485). Vilhjálmur af Basker-
ville segist hafa heyrt talað um að Orsakahókin sé í rauninni ekki eftir
Aristóteles (68). Einnig verður að geta um Diónýsíus hinn rangnefnda sem var
kristinn nýplatónisti undir mjög sterkum áhrifum hins rammheiðna Próklosar.
Miðaldamenn töldu lengi vel, áreiðanlega ranglega, að hann væri einn og
sami maðurinn og Diónýsíus Areopagíti sem nefndur er sem fylgismaður
Páls postula í Postulasögunni 17.34. Meðal annars vegna þessa meinta
sambands við sjálfan Pál áttu kenningar Diónýsíusar greiða leið að hug og
hjarta lærdómsmanna kirkjunnar. Meira að segja Jorge, sem annars virðist
lítt hrifinn af grískri heimspeki, vitnar til hans með velþóknun (442). Jorge
er hins vegar eflaust ekki sjálfum ljóst, að trúarheimspekin sem hann
aðhyllist er heiðinnar ættar.
Framan af miðöldum var Aristóteles fremur lítt þekktur í Vestur-Evrópu.
Til var latnesk þýðing Boetíusar á Riðlunum og Setningafrceðinni (De inter-
167