Tímarit Máls og menningar - 01.05.1985, Blaðsíða 29
Eyjólfur Kjalar Emilsson
Ilmur af nafni rósarinnar
Heimspeki Vilhjálms af Baskerville og nafna hans af Ockham
Nafn rósarinnar eftir Umberto Eco, sem nú hefur birst í íslenskri þýðingu
Thors Vilhjálmssonar, hefur farið sigurför um heiminn nú síðustu árin.1 Af
einhverjum ástæðum komst bókin í tísku (Guð einn veit hvað ræður því
hvaða hlutir komast í tísku) og útgefendur og bóksalar bæði austan hafs og
vestan gengu á lagið og héldu henni mjög á loft, sem kallaði svo á enn fleiri
lesendur og þannig áfram. Kannski er óþarft að leita frekari skýringa á vin-
sældunum. En tilvikið er þó sérstætt að því leyti að hér fara saman vinsældir
og gæði. Eins og ritdómarar og auglýsendur hafa hamrað á er bókin
vissulega með afbrigðum auðug: það má lesa hana sem allt í senn leyni-
lögreglusögu af bestu sort, lifandi heimild um líf, hugsunarhátt og sögu
fólks á 14. öld eða sem skarpskyggna lýsingu á samtíma okkar í dulargervi.
Sumir vilja meira að segja bæta þarna við „sem heimspekirit“.
Hvort sem þessi síðastnefnda einkunn er nú fyllilega réttmæt eða ekki
setja hugmyndir, heimspekilegar og guðfræðilegar, óneitanlega mikinn svip
á Nafn rósarinnar. Fjölmargar skírskotanir til heimspekirita og heimspeki-
kenninga er þar að finna eins og vera ber í sögu sem gerist meðal lærdóms-
manna á 14. öld. Og sem meira er: ein aðalsöguhetjan, sjálfur spæjarinn Vil-
hjálmur af Baskerville, á sér sögulega fyrirmynd í nafna sínum af Ockham,
sem var merkasti og áhrifamesti heimspekingur aldarinnar. Hér á eftir
kemur svolítill samtíningur um skírskotanir til heimspekirita og hugmynda
sem ég hef veitt eftirtekt við lestur bókarinnar. Ekki er þó hirt um að elta
uppi og segja deili á hverju einasta nafni sem fyrir kemur í bókinni og við
heimspeki má tengja, heldur hef ég kosið að halda mig mest við heimspeki
Vilhjálms af Ockham, sem setur mjög mark sitt á verkið. Þetta er náttúrlega
fyrst og fremst hugsað sem fróðleikur og kannski örlítil skemmtun fyrir
lesendur bókarinnar. Því er þó ekki að leyna að sú hugsun, sem kannski má
kalla hégómlega, hefur líka att mér til að skrifa þessar síður að mér hefur
sýnst löngu tímabært að á íslensku birtust þó ekki væru nema fáein orð um
miðaldaheimspeki önnur en glósur fólks sem notar orðin „skólaspeki" og
„miðaldaguðfræði" sem skammaryrði. Þessi orð hafa menn iðulega um
163