Tímarit Máls og menningar - 01.05.1985, Blaðsíða 31
Ilmur af nafni rósarinnar
að hið altæka megi leggja að jöfnu við tegund og fylkingu og líka við eðli
hlutanna: að vera maður — sem er tegundarheiti — er það sem Sókratesi,
Xanþippu, Jóni og Gunnu er sameiginlegt; að vera dýr — sem er fylkingar-
heiti — er hið sameiginlega með manninum, asnanum og ljóninu (og þar
með sameiginlegt öllum einstaklingum þessara tegunda). Ennfremur er
eiginleikinn að vera maður eðli Sókratesar, sem til að mynda geðprýði hans
eða ófríðleiki eru ekki. Þetta hefur þá afleiðingu meðal annarra að vísindaleg
þekking er þekking á tegundum og fylkingum og sambandi þeirra og sú
þekking er jafnframt þekking á eðli hlutanna. Þar með er ljóst orðið að
tegund og fylking eru ekki bara einhver flokkunarfræðihugtök, heldur skipa
þau þann virðulega sess að vera hugtök um það sem öll þekking er þekk-
ing á.
Um leið og maður fer að velta því frekar fyrir sér hvað tegundir og fylk-
ingar séu vakna ýmsar spurningar sem ekki er auðsvarað. A til dæmis að
skilja það alveg bókstaflega þegar sagt er að „að vera maður“ sé sameiginlegt-
öllum einstaklingunum sem undir tegundina falla? Ef svarað er játandi, þá
fylgir að einn og sami hluturinn er bæði í Sókratesi og Xanþippu í bókstaf-
legum skilningi. Því hefur mörgum fundist erfitt að kyngja: hvernig getur
einn og sami hluturinn verið víða? En ef ekki í bókstaflegum skilningi, í
hvaða skilningi þá? Eitt svar er að í rauninni sé Sókratesi og Xanþippu
sjálfum ekkert sameiginlegt, heldur sé hið sameiginlega í hugsun okkar um
þau (og aðra menn): þegar við hugsum um manninn almennt eða um
Sókrates og Xanþippu sem menn, þá er altækt hugtak, hugtakið „maður“,
virkt í hugum okkar. Hið altæka býr sem sé í hugsun vitsmunavera og
hvergi annars staðar. En ef svo er og ef hið altæka er viðfang þekkingarinn-
ar, hvernig má þá vera að viðföng þekkingar okkar búi alls ekki í hlutunum
sjálfum sem þekkingin virðist vera þekking á, heldur séu þau bara fyrirbæri í
huga okkar sjálfra án samsvörunar í ytri veruleika? Hvernig má það vera að
þegar ég segi að Sókrates sé maður og Platón sé maður, og segi þetta satt, þá
eigi hugtakið sem ég felli þá báða undir sér enga samsvörun í Sókratesi og
Platóni sjálfum?
Heimspekingar á borð við Porfýríus, Boetíus og Abelard sem aðhylltust í
höfuðatriðum rökfræði Aristótelesar, eða tóku hana í arf, rökræddu spurn-
ingar af þessu tagi. I Isagoge greinir Porfýríus þrjár slíkar spurningar, sem
ekki verða tíundaðar hér. I ritskýringu sinni á ritskýringu Boetíusar bætir
Abelard við fjórðu spurningunni, sem hann reyndar gefur í skyn að
Porfýríus kunni að hafa haft sjálfur í huga á einum stað þar sem orðalag er
óljóst. Spurning Abelards er á þá leið „. . .hvort til verði að vera einhverjir
hlutir sem undir fylkingu og tegund falla eða hvort vera megi að jafnvel
þegar hlutirnir sjálfir sem vísað er til eru forgengnir þá fylgi enn eitthvað
165