Tímarit Máls og menningar - 01.05.1985, Blaðsíða 10
Tímarit Máls og menningar
listarmenn hafa sjaldnast talið það frágangssök að glettast við fölskva-
lausustu listunnendur, og ekki hafa þeir látið sitt eftir liggja við að auka á
óreiðuna. Þeir eru komnir yfir í bókagerð. En þó að skáldin fái sem áður
sinn fasta dagskammt af spaklegum umsögnum, þá hefur myndlistarmönn-
unum verið næsta lítið sinnt af þeim sem að jafnaði hafa atvinnu af að lesa
bækur, og það svo að bækur myndlistarmanna hafa jafnvel alveg farið fram
hjá þeim. En þar er kannski ekki endilega við þá sjálfa að sakast, því að
bækur myndlistarmanna eru einatt torlæsilegar og það af þeirri veigamiklu
ástæðu að í þeim er ósjaldan ekkert letur og ekkert þar að lesa. Hvernig eiga
þá lestrarhestarnir að snúa sér til þess að komast til botns í verkum bóka-
ormanna ólæsu? Hvernig eiga þeir grandalausir við sjónhverfingum að rýna
í óletraðar síðurnar sér til skilnings og yndisauka? Hvað er eiginlega á
seyði? Skáldið skrifar myndverk, myndlistarmaðurinn býr til bækur? Til
þess að átta okkur ögn á þessu öllu saman skulum við fyrst líta á nokkrar
hræringar í listum erlendis og reyna hvort okkur verður þar nokkuð ágengt
í því að koma einhverju viti í þennan óskapnað. Síðan skal vikið að
frumkvöðlum bókagerðar meðal íslenskra myndlistarmanna á árunum
1965—1975 og að lokum fjallað um helstu einkennin á bókalist yngri
listamanna.
I
Þá er þar til að taka að bækur og myndlist hafa átt lengri samleið en menn
kann ef til vill að reka minni til í fyrstu. En jafnskjótt og á þetta er bent má
sjá það í hendi sér. Nægir að nefna bókakápur til þess að komast á rek-
spölinn. Auk þess voru bækur áður fyrr ekki metnar eingöngu eftir því
hversu lygilegar skröksögur þær höfðu að geyma, heldur einnig eftir því
hvernig þær litu út, hvernig þær voru skreyttar, lýstar eða búnar, og er
nærtækt að vísa hér til íslenskra skinnbóka sem nú eru út gefnar með
viðhöfn og þykja dýrgripir. Rannsókn handritalýsinga er orðin sérgrein í
listasögunni og jafnvel þeir sem láta sér nægja að fást við stafkrókafræði eru
ekki svo skyni skroppnir að þeim sé fyrirmunað að kunna að meta fallega
rithönd eða vel dreginn upphafsstaf. Prentaðar bækur frá fyrri öldum eru í
ýmsum atriðum ekki fjarskyldar þrykktækni myndlistarmanna. Auk þess
eru þær margar hverjar skreyttar prentmyndum og titilsíður þeirra hafa ekki
heldur farið varhluta þar af. Má hér nefna Guðbrandsbiblíu sem dæmi.
En það er þó ekki fyrr en á 19. öld að menn taka að velta fyrir sér gerð og
hlutverki bókarinnar í því skyni að taka bókarformið inn í hugmyndina að
verkinu. Er þar einkum að nefna franska skáldið Stéphane Mallarmé sem
kunnastur er fyrir myrk og torræð ljóð og var einn af frumkvöðlum