Tímarit Máls og menningar - 01.05.1985, Blaðsíða 88
Tímarit Máls og menningar
Hefðarfrúin frammi fyrir prinsinum og mælti við hann:
— Eg hef blekkt þig, prins. Eg er að vísu Ukifune, dóttir So-Heis
bónda, en ég villtist ekki á fjallinu; frægð Genghis prins hefur borist
allt til þorpsins og ég kom af fúsum og frjálsum vilja til þess að
kynnast ástinni í örmum þínum.
Genghi stóð á fætur og riðaði eins og grenitré sem sveiflaðist til og
frá undan þunga vetrar og vinds. Hann hrópaði upp yfir sig hvínandi
röddu:
— Bölvun sé þér, sem hefur vakið upp minninguna um versta óvin
minn, prinsinn glæsilega með leiftrandi augun; mynd hans heldur
fyrir mér vöku allar nætur . . . Farðu burt . . .
Og Hefðarfrúin-úr-þorpinu-þar-sem-blómum-rignir hörfaði á
brott og harmaði mistök sín.
Vikurnar sem fóru í hönd var Genghi einsamall. Hann þjáðist.
Hann sá sér til hrellingar að hann var ennþá fastur í gildrum þessa
heims og lítt búinn undir sjálfsafneitanir og endurnýjanir annars lífs.
Heimsókn dóttur So-Heis bónda hafði endurvakið hjá honum
löngun eftir verum með granna úlnliði, stinnan barm og hjartnæman
og auðsveipan hlátur. Síðan hann varð blindur, fólst skynjun hans á
fegurð heimsins í snertingunni einni, og landslagið þar sem hann
hafði leitað sér athvarfs veitti honum enga huggun framar, því að
lækjarniður er tilbreytingarsnauðari en konurödd og ávalar hæðirnar
og skýjalokkarnir eru fyrir þá sem sjá og svífa fjær en svo að unnt sé
að hafa hendur á þeim og strjúka þeim.
Tveim mánuðum síðar gerði Hefðarfrúin-úr-þorpinu-þar-sem-
blómum-rignir aðra tilraun. I þetta sinn vandaði hún bæði búning
sinn og snyrtingu, en hún gætti þess að hafa smekkleg klæðin með
siðprúðu yfirbragði, og að milt ilmvatnið, sem hún bar á sig, væri
nógu hversdagslegt til þess að gefa til kynna fábrotið ímyndunarafl
ungrar stúlku sem komin væri af sómakæru fólki utan af landsbyggð-
inni og hefði aldrei komist í tæri við hirðina.
Af þessu tilefni leigði hún sér burðarmenn og tilkomumikinn
burðarstól, sem þó var heldur frumstæðari en tíðkaðist um slíka stóla
í borginni. Hún hagaði því svo til að hún kom ekki í nágrenni kofa
Genghis fyrr en undir kvöld. Sumarið var þegar sest að í fjallinu.
Genghi sat við rætur hlynsins og hlustaði á sönginn í skortítunum.
222