Tímarit Máls og menningar - 01.05.1985, Blaðsíða 58
Tímarit Máls og menningar
leikarinn sagði að sumir vissu ekki hvað þeir ættu gott. Júlíeta var á
sama máli. En það var af öðrum ástæðum: vegna þess að ég vissi að
hún var til í bók og elskaði mann sem hét Rómeo. I tilefni af því
sýndi hún mér dálítið dásamlegt. Hún leiddi mig fyrir hornið og að
Anexo og benti upp í einn gluggann.
Hvað heldurðu að þetta sé? spurði hún.
Eg sá eitthvað blakta í vindinum og sagði „bandhespa" og þá fór
hún að hóa og hlæja.
Nei, þetta er hárið á henni Begóníu, sagði hún.
Begónía hafði þá þvegið sér um höfuðið og var að þurrka hárið í
sólinni svo það yrði þungt og gljáandi. Nú reis hún upp og tók hárið
með sér úr glugganum og sletti því aftur fyrir sig og sagði:
Þú gast ekki getið upp á því. Eg sagði það. Eg veðjaði.
Nú voru þær eflaust allar dauðar, en lögreglustöðin var á sínum
stað, með nýjum lögreglum og engin Gríselda með bakkann í
höndunum á hádegi og beið uns henni yrði vísað inn í ganginn og
skoðuð og látin bragða örlítið á matnum með silfurskeið, svo öruggt
væri að ekkert eitur væri í honum. En leikarinn gnísti tönnum í
glugganum á Sevilha og enginn vissi að hann ætlaði að hefna Gríseldu
ef bylting yrði gerð í landinu. Hann hét meira að segja að giftast
henni en hún sletti í góm yfir slíkum loforðum.
Eg opnaði gluggann á húsinu þar sem ég bý. Páfagaukurinn hló í
næsta húsi.
Þegar fór að dimma kom ungi strákurinn fram á svalirnar á
hornhúsinu og horfði niður í götu Heilags getnaðar til að svipast um
eftir hórunum. Hann var hlutlaus á svip eins og sá sem hefur alist upp
við eitthvað sem hann fær samt aldrei að snerta. Mamma hans er óðar
komin á eftir honum. Hún hefur auga með honum á bak við þunnu
gluggatjöldin úr gasi sem bærast svo listrænt í kvöldblænum sem fer
um borgina. Stundum sogast þau út, stundum leggjast þau að líkama
móðurinnar. Ungi strákurinn stendur síðdegis á svölunum og horfir
á lífið fyrir neðan, karlmennina sem slangra hálfdrukknir út úr
kaffihúsunum og styðja veggina, og hórurnar sem tyggja tyggjóið sitt
og blása því út úr sér í stóra þunna blöðru sem verður áþekk grárri
froðu á vörum þeirra þegar hún springur: Fokkí-fokkí.
Eg hallaði mér á svalariðið, samt ekki það fast að það gæfi sig og
allt hrapaði niður á götuna. Þá kom eftir henni maður eins og á flugi,
192