Tímarit Máls og menningar - 01.05.1985, Qupperneq 66
Tímarit Máls og menningar
stakk niður skóflunni og síðan sást hann róta með hendinni, og
andlitið kom upp og þá hafði hann lokið við að stinga upp garðinn,
löngu á eftir föður mínum, en hann hafði fundið það sem gerði sein-
læti hans að engu. Hann hélt andlitinu uppi, fagnandi. Hann nálg-
aðist húsið með stríðni á vör, en þegar hann kom inn var komið að
fréttum sem allir urðu að hlusta á. Og þegar þeim lauk var mesti
móðurinn runninn af honum.
Andlitið lá á tröppunum. Það lá þar lengi. Síðan datt það niður um
rifu og glataði gildi sínu. Það hafði verið grafið upp og átti ekki
lengur leyndan stað, hvorki í jörðinni né innra með sjálfum mér.
Helgi þess hafði einhvern veginn verið svívirt. Það kunni ekki að
leyna sér og gagnaðist þá ekki heldur þörf annarra fyrir leynd: mér
og sál minni.
Eftir matinn við borðið hafði frændi minn reynt að draga athyglina
og stríðni föður míns frá sér og færa hana yfir á mig. Faðir minn var
því hálf hvumsa og hefur eflaust þótt hann vera hinn niðurlægði í
lokin. Því hvað er afl á við að hafa fundið brúðu?
Þá bað ég guð innilega og í hljóði, meðan rauk úr fiskinum framan
í mig og fréttirnar hljómuðu, að drepa frænda minn sem fyrst.
Guð, dreptu hann strax, svo ekki komist upp um andlitið á Augna-
lausu Völu, svo sagan berist ekki út. Dreptu hann strax, góði guð.
Þannig bað ég af heift. Eg þagði og lét sem ég heyrði ekki, en því
ákafari var óskin um að frændi minn dræpist og það áður en hann
færi með fréttina af fundinum út úr eldhúsinu.
Seinna minnist ég þess að hafa séð frænda minn sitja í fanginu á
jafnaldra sínum á stól úti á tröppum og þeir þóttust vera að leika á
harmoniku. En fyrir neðan hló kerling. Þá voru þeir að fara á síld.
Ærsl þeirra voru mikil, félaganna, og þeir skiptust á um að vera
harmonikan í fangi hins. Harmonikan lék ekki aðeins lög, hún söng
líka með ýkjum, handaslætti og fótasparki á tröppunum í skjóli fyrir
vindi í vorsólinni. Kerlingin ætlaði að verða vitlaus af hlátri og ég
hékk á garðshliðinu sem snerist á hjörunum og flaug með mig uns
kerlingin sagði mér að brjóta það ekki með niði þessu.
Um haustið kom frændi minn af síldinni, fárveikur og var lagður í
sjúkrahús með berkla. Eg hef það á tilfinningunni að fréttir af líðan
hans hafi alltaf borist okkur meðan við borðuðum og það rauk úr
fiskinum. Og þá hafi ég minnst þess hvernig hann fletti ofan af mér,
200