Tímarit Máls og menningar - 01.02.1989, Page 21
Adrepur
Að belgja nú í sig
þetta blessaða loft
júgurfroðuna
jökulrunna-
hvílíkur unaður
himins og jarðar!
-Lygna augum
undir úðaregni
og svelgja, svelgja
sólgnum teygum
þessa ljósþrungnu
löðurangan
. . . (Þorsteinn Valdimarsson: Gullfoss)
Ekki skulu hér rakin fleiri dæmi, þótt unnt væri. Það má álykta af þessum, að
þakkarverður sé dugnaður bókmenntafræðinga við að færa heim nýjustu tækni
og vísindi. En það nær of skammt að yfirfæra kenningarnar bara gagnrýnislaust
á tiltæk bókmenntaverk. Lærdómur bókmenntatúlkenda og hugvit nyti sín
mun betur, ef þeir færu fræðilegar að. Fyrst er að greina bókmenntaverkið sem
heild, og sjá hlutverk einstakra þátta í þeirri heild. Síðan hlýtur öll bókmennta-
túlkun að skoða bókmenntaverkið innan landamæra annars sviðs. Það fer eftir
áhugamálum túlkanda hvort það er svið goðsagna, kenninga um stéttaþjóðfé-
lag, sálræna mótun einstaklings eða annað. En til að slík athugun verði sann-
færandi, nægir ekki að setja fram tilgátur, heldur þarf jafnframt að sannprófa
þær á einhvern hátt. Einfaldasta leiðin er að bera þær saman við aðrar tilgátur,
sem fyrr hafa komið fram um þetta efni, og rökræða hver eigi best við. Finnist
þær engar, verður túlkandinn sjálfur að finna mögulega valkosti við túlkun
sína. Það er ekki nema sjálfsögð virðing við lesendur að höfða til dómgreindar
þeirra eftir föngum.
Greinar sem til er vitnað:
Þorsteinn Gylfason: Er vit í vísindum? TMM 1975, bls. 245-266. Sjá ennfremur rit
sem þar er til vitnað, einkum Lakatos, og: Karl Popper: The poverty of Histor-
icism. London 1957.
Peter Hallberg: „Við vitum ekki hvort þau hafa andlit“. Nokkrar hugleiðingar um
Fljótt, fljótt sagði fuglinn eftir Thor Vilhjálmsson. TMM 1972, bls. 119-134.
Soffía A. Birgisdóttir: „Fossafans" Morgunblaðið 25. 10. og 1. 11. 1987.
Helga Kress: „Dæmd til að hrekjast“ TMM 1988, bls. 55-93.
Guðm. Andri Thorsson: „Eilífur kallar/kvenleikinn oss“. . . TMM 1988, bls. 187-195.
Bergljót Kristjánsdóttir: „Um beinfætta menn og bjúgfætta, kiðfætta, kríngilfætta
og tindilfætta" TMM 1988, bls. 283-300.
Dagný Kristjánsdóttir: „Aldrei gerði Kristur sálu Þórelfi, vorri móður“ TMM 1988,
bls. 301-321.
Matthías V. Sæmundsson: „Myndir á sandi“ TMM 1988, bls 338-365.
11