Tímarit Máls og menningar - 01.02.1989, Qupperneq 104
Tímarit Máls og menningar
Eg heyrði hana æpa um leið og hún hörfaði inn í myrkrið, augu
mín blinduð af ljósinu greindu ekki neitt, þá kafnaði allt í jarð-
skjálftadrunum og lóðréttur bergveggur reis allt í einu, og skildi
okkur að.
„Ayl hvar ertu? Reyndu að koma hingað yfir áður en kletturinn
hættir að hreyfast!“ Og ég hljóp meðfram veggnum í leit að rifu en
slétt, grátt yfirborðið var ósprungið.
Risavaxinn fjallgarður hafði myndast á staðnum. Þegar ég þrýstist
út fyrir hafði Ayl orðið eftir handan við klettavegginn, lokuð inni í
iðrum jarðarinnar.
„Ayl! Hvar ertu? Af hverju ertu ekki hérna úti?“ Og ég leit í
kringum mig á landslagið sem lá við fætur mína. Iðjagrænir vellir
þar sem fyrstu blóðrauðu valmúarnir blómstruðu, kanarígul engi
sem lágu eftir fölbrúnum hlíðunum að hafi fullu af himinbláum
glömpum, skyndilega virtist mér allt þetta svo lítils virði, svo hvers-
dagslegt, svo falskt, svo andstætt persónuleika Ayl, heimi Ayl, hug-
myndum Ayl um fegurðina, að ég skildi að hún hefði aldrei getað
átt heima hérna fyrir utan. Og ég skildi með ótta og söknuði að ég
hafði orðið eftir fyrir utan, að ég myndi aldrei geta flúið gyllta og
silfraða bjarmana, litlu skýin sem breyttust úr fölbláum í bleik, græn
laufin sem gulnuðu hvert haust, og að heimur Ayl var glataður að
eilífu, svo glataður að ég gat ekki ímyndað mér hann lengur, og að
ekkert var eftir sem minnti mig á hann, ekkert nema ef væri þessi
kaldi, grái bergveggur.
(úr smdsagnasafninu Kosmíkómík - 1965)
Sjón þýddi
Italo Calvino fæddist á Kúbu 1923 en ólst upp í San Remo á Ítalíu, þar sem hann
bjó þar til hann lést árið 1985. Hann er einn frumlegasti rithöfundur Itala á þessari
öld og hefur haft gríðarleg áhrif víða um lönd á síðustu tíu árum. Hann hefur ekki
verið þýddur áður á íslensku.
94