Tímarit Máls og menningar - 01.02.1989, Síða 105
Rosa Chacel
Hnúturinn óleysanlegi
Áróra stökk yfir garðvegginn þar sem steinarnir höfðu hrunið úr,
eins og þegar hún var lítil telpa. Geitin slapp stundum þarna út og
þá sögðu þau alltaf: „Það þarf að hlaða þarna grjóti“ - en það gerðu
þau aldrei. Það var eins og þau hefðu þetta svona til þess að hún
kæmist þarna út: svo að geitin geti sloppið þarf hún op til að komast
út um. Þannig liðu árin án þess að gömlu hjónin og barnabörnin
hlæðu grjóti í skarðið. . . Allt þetta flaug um huga hennar um leið
og hún stökk yfir vegginn, það var alltaf þetta sama, aftur og aftur,
endalaust, og samstundis fæddist hugsunin í höfði hennar, óhaggan-
leg og ótrúleg: „þetta er í síðasta sinn sem ég stekk hér yfir!“
Á stígnum var þokan svo þykk að dagskíman varð ekki greind.
Andartaksstund stóð hún þarna ein með sjálfri sér, nægilega lengi til
að hugsa: Nú er ég búin að því. Og í sömu andrá varð til önnur
hugsun sem vék hinni á brott, svo heiftúðug að hún bar kvíðann of-
urliði: „Eg skal gera það! Eg skal gera það!“ Það var vegna þokunn-
ar sem hún fann til þessarar áköfu einsemdar, eða ef til vill vegna
þess að hún stóð andspænis sinni eigin ákvörðun, svo var hún ekki
lengur einsömul. Artúr hafði beðið hennar rétt hjá og þegar hann
heyrði steinvölurnar hrynja við stökkið, sem lækkaði grjótvegginn
enn meir, kom hann og greip fast um handlegg hennar. Þau föðm-
uðust ekki, þrýstu sér einungis snöggt hvort að öðru og hlupu af
stað.
Þau hlupu niður stíginn án þess að veita neinu eftirtekt nema
steinunum, skínandi af úðanum sem var næstum því regn; en svo
örsmáir voru droparnir að þeir bárust upp í munninn þegar þau
önduðu að sér. Þau hlupu áfram þögul uns þorpið var langt að baki
og þá fyrst námu þau staðar til að ná andanum. En aðeins skamma
stund, nærri því samstundis tóku þau aftur til fótanna því það sem
þau höfðu í hyggju leyfði hvorki hugarró né hvíld. Þau hlupu með-
fram læknum sem liðaðist þarna á milli trjánna og þeim veittist létt-
95