Tímarit Máls og menningar - 01.02.1989, Page 106
Tímarit Máls og menningar
ara að hlaupa niður hallann. Þegar þau komu niður að árbakkanum
hafði þokunni létt af ánni og grænn litur kastaníutrjánna lifnaði í
birtunni. Þau fóru alveg fram á ystu brún. A þessum stað var áin
breið og skildi eftir sig rönd af svörtum sandi. Allt yfirborð fljótsins
var litað af sótfallinu frá námunum og það glampaði á ógnarlega
svart vatnið.
Þeim hafði legið svo óskaplega á að það var ekki fyrr en þarna
sem þau staðnæmdust; en þetta var ekki staðurinn sem þau leituðu.
Þau urðu því að ganga meðfram ánni og stökkva yfir limgerðin milli
engjanna. Þarna var bugða á ánni og vegna þess hve þokan var þétt
höfðu þau lent á vegslóða sem neyddi þau nú til að fara yfir hæð
eina og gegnum skóg, fullan af burknum. Þau hikuðu: ef þau
sveigðu hjá hæðinni áttu þau á hættu að rekast á fólk á leið til vinnu,
en færu þau gegnum skóginn myndi mæta þeim þessi lykt og svo
myndu þau sjá brotna stönglana sem varðveittu ummerkin eftir lík-
ama þeirra.
Þau fóru gegnum skóginn en ekki of langt inn í hann. Þau reyndu
að leynast í kjarrinu og forðuðust að líta í áttina að þykkninu, svara
kalli þessa mosagræna litar, heldur horfðu alltaf til hliðar þangað
sem aflíðandi hæðin lá niður að húsaþyrpingunni og veginum. Hús
námuverkamannanna komu í ljós, hrörleg á að líta. Auðvitað vissu
þau sem fyrr að húsin voru hrörleg en á þessari stundu þegar ljósið
skein svo skært á döggvot þökin og reykurinn var farinn að liðast
upp um skorsteinana mátti finna í því öllu fegurð sem var bæði
mjúk og værðarleg.
Artúr hélt um handlegginn á henni og togaði hana í átt að skógar-
þykkninu. Aróra hristi höfuðið, þau vildu ekki horfa hvort á annað.
Að lokum sagði Artúr: „Hvers vegna ekki?“ Og honum tókst að
láta rödd sína hljóma í senn sannfærandi og ákveðna. Hann sagði:
„Hvers vegna ekki?“ - það var allt og sumt - en það merkti líka:
„Það breytir engu.“ Hann lét svo óumræðilega margt í ljósi, bara
með því að segja: „Hvers vegna ekki?“ Og Áróra lét undan vegna
þess að hún átti ekkert svar. Auk þess togaði hann hana með sér og
hraðaði sér með hana inn á milli burknanna.
Bæði tvö fundu vel að sannfæringin sem hafði knúið þau áfram
skömmu áður var gufuð upp en þau treystu því að hún myndi fæð-
ast aftur. Þau voru þögul eins og þau byggjust við að heyra hana
96