Tímarit Máls og menningar - 01.02.1989, Page 111
Hnúturinn óleysanlegi
spyrntu fótunum í jörðina eins og þegar báti er ýtt á flot, eins og
það væri jörðin með allri sinni óreiðu sem myndi sökkva í straum-
inn en þau stæðu kyrr í eilífu faðmlagi.
Fallið tók fljótt af því rústirnar stóðu aðeins nokkra metra upp úr.
Þau lentu í vatninu og sukku í þéttum faðmlögum og héldu niðri í
sér andanum. Eftir því sem þau sukku dýpra urðu líkamar þeirra
léttari. Þau opnuðu augun. Frá árbotninum séð sýndist vatnið vera
blátt og varð stöðugt skærblárra uns það líktist engu nema skærasta
kristalli sem brotnaði svo við enni þeirra á leiðinni upp til að ná
andanum. Sama eðlishvötin og fékk þau til að sveigja líkamann þar
til þau náðu yfirborðinu kom þeim til að lyfta höfðinu upp úr, anda
djúpt að sér og loka munninum áður en þau sukku á nýjan leik.
Artúr reyndi að bera uppi líkama Aróru með öðrum handleggn-
um og synda með hinum, það gerðist ósjálfrátt en var ekki ásetn-
ingur hans. Þótt þau hefðu verið samtaka í þrekraun sinni breyttu
þau um stöðu á því andartaki er þau stukku. Þá færðust þau dálítið
til í bandinu sem hélt þeim saman og sneru ekki lengur augliti til
auglitis heldur voru nærri því samsíða. Artúr hristi burt hárið sem lá
yfir augum hans og leit á Aróru. Að þessu sinni voru augu hennar
ekki lokuð heldur þvert á móti galopin og angistarfull svo andlit
hennar virtist smærra og hún varð barnsleg og veikbyggð að sjá,
svipt öllum lífskrafti. Óumræðileg blíða og dapurleiki fékk hann til
að gleyma hættunni, berjast gegn henni af alefli. Hann sló ákaft um
sig handleggjunum og stakk sér í vatnið. Með hægri handleggnum
fleytti hann sér áfram á hliðinni, áleiðis að bakkanum á móti og
tókst með hinum handleggnum að halda henni á floti. Eftir hið
ósjálfráða viðbragð er þeim skaut báðum upp á yfirborðið fann Ar-
óra fyrir öflugri mótspyrnunni sem líkami hans veitti gegn vatns-
flaumnum þegar lífshvötin vaknaði skyndilega með honum. Aðeins
einn ásetningur bærðist í huga Aróru: að lyfta höfðinu, halda því of-
ar öldunum sem kaffærðu hana af og til. Allur hennar fyrri vilji og
óttaleysi hafði gufað upp í stökkinu út í tómið. Eftir sat aðeins óvið-
ráðanleg angistin og skýr vitund um þann kraft sem svipti henni
með sér og ósveigjanleika þessa sama krafts sem ekki varð hönd á
fest þar sem hann streymdi fram. En undir bandinu sem herti að
mitti hennar bjó annað afl sem var þrautseigara og kröftugra en
hennar eigið og opnaði þeim leið yfir bylgjurnar.
101