Tímarit Máls og menningar - 01.09.1996, Blaðsíða 20
öðruvísi en menn sögðu að sonnettan ætti að vera. Það er meðvituð tækni
sem ég nota til að minna á þann hrjúfa heim sem við lifðum í þegar bókin
var ort.
Ég held áfram að vísa í Völuspá í þessum flokki. Hann var ortur á ferðum
um landið og göngu í Reykjavík. Meðan ég var að yrkja hann var ég alltaf
með hugann við hann. Það komu alltaf einhverjar sonnettur og ég varð
dálítið hissa því þetta var ekki það sem stóð hjarta mínu næst. En ég varð að
gera upp umhverfi mitt á þessum tíma. Koma reglu á hlutina í reglubundnu
formi.“
Finnst þér alveg eins létt eða erfitt að yrkja bundið og óbundið?
„Að sumu leyti þykir mér erfiðara að yrkja bundið þannig að mér finnist
það takast. Þú hefur séð það í síðustu bundnu ljóðunum mínum að þau eru
eiginlega allt öðruvísi hefðbundin kvæði en hefðbundin kvæði eiga að vera.
Og ég held að það hafi verið alveg rétt hjá Þórbergi þegar hann sagði að ég
yrði alltaf atómskáld, alveg sama í hvaða stíl ég væri að yrkja. Ég hef alltaf
svolítið súrrealistíska afstöðu til umhverfisins, er það ekki?“
Það hugtak kemur oft upp í hugann þegar maður les Ijóðin þín.
„Þá skiptir ekki máli hvort ég yrki óbundið eða bundið. En mér finnst ég
vera farinn að ná tökum á því sem mig langar til að yrkja bundið, það var
löng leið að því. Eitt af því sem ég gerði mér grein fyrir þegar ég var ungur
er að ég var seinþroska og átti að bíða þangað til ég dytti af trénu. Hannes
Pétursson var til dæmis óskaplega bráðþroska skáld. Líklega ekki annað
jafhbráðþroska skáld á íslandi nema kannski Hannes Hafstein eða Kristján
Fjallaskáld.
Eftir að Fagur er dalur kom út fékk ég fallegt bréf frá Jóni úr Vör. En hann
varar mig líka við og segir: „Ég held að þetta sé heilsteyptasta bókin þín, og
rímuðu kvæðin eru svo vel gerð, að satt að segja held ég að síðustu árin hafí
ekki öðrum tekist betur, þegar frá er skilinn Jóhannes úr Kötlum.. . . Ekki
skaltu samt halda, að ég ætli sérstakiega að hvetja þig tii að taka rímið framyfir
rímleysið, en það er gott að geta brugðið hinu fyrir sig.“ Þetta bréf er skrifað
15. maí ’66. Það var uppörvandi og mér þótti vænt um það. Og þá ekki síst
þessa klausu: „Nú skrifar Ólafur [Jónsson] í dag. og það er nú kannski
þessvegna sem ég skrifa. Honum finnst þú vera of margorður. En ef þú værir
það ekki, Matthías minn, værir þú ekki höfundur ljóðanna, heldur einhver
annar. Þetta er nú einmitt þinn máti, það sem gerir ljóð þín ágætlega læsileg
og gefur þeim sérstakan blæ. Ég hef ekki trú á því, að þú gerir betri bækur
með t.d. stuttum Ijóðum, en kannski á ég eftir að lifa það. Kvæði af þessari
gerð er ósköp auðvelt að tæta í sundur, taka úr þeim eitt til tvö erindi og segja
að hinu öllu sé ofaukið. Það væri vissulega auðvelt að fullvissa smekkmenn
eins og okkur um að í einstökum tilfellum væri þetta rétt. En þú mundir bara
ekki yrkja svona, — það er einmitt hraðinn í ljóðaveðri þínu — og svo sá
blær í ljóðabókinni, sem við það skapast, sem gerir bókina að þinni bók.“
18
TMM 1996:3