Tímarit Máls og menningar - 01.09.1996, Blaðsíða 75
* * *
Það var þessum boðskap, þessum fagurgala um lífíð til sveita, sem Halldór
vildi andmæla með Sjálfstæðu fólki. Um það tekur hann af öll tvímæli í
eftirmála annarrar útgáfu verksins árið 1952:
Því hefur verið haldið fram að Sjálfstætt fólk væri að nokkru leyti
stælt eftir Hamsun, Markens gröde. Það er að því leyti rétt sem hér
er spurt sömu spurnínga og í Markens gröde, — þó svarið sé að
vísu þveröfugt við svar Hamsuns. Ég er ekki að segja að allar
þjóðfélagsniðurstöður — eða aðrar — í Sjálfstæðu fólki séu réttar,
en sinn þátt í samníngu bókarinnar átti sú vissa mín að þjóðfélags-
legar niðurstöður Hamsuns í Markens gröde væru yfirleitt rángar.14
Halldór hafði reyndar lengi ætlað að skrifa bók um bændaspursmálið. Hann
var ekki nema sautján ára þegar hann skrifaði smásögu um Þórð í Kálfakoti
og fékk birta í Berlingske Tidende; mitt í bernskum og uppskrúfuðum
hugarheimi þeirrar sögu glittir í stef sem Halldór notaði síðar. Áður hafði
hann sent frá sér Barn náttúrunnar, sveitasæluróman sem er undir sterkum
áhrifum frá Rousseau og þó kannski enn frekar Hamsun, án gagnrýnins
viðhorfs. Snemma á þriðja áratugnum skrifaði hann drög að nýrri bænda-
sögu og nefndi Salt jarðar, en þau eru glötuð. Hér á eftir skal höfð uppi
kenning um það hvers vegna heimsborgarinn Halldór vildi endilega skrifa
sögu um bændur í afskekktri íslenskri byggð, en auðveldara er þó að gera sér
grein fýrir hvers vegna það tókst ekki — lengi vel. Halldór hafði einfaldlega
ekki fundið sjónarhorn, grunn að standa á þegar hann virti fyrir sér sveita-
lífið. Því eins og gagnrýni hans á Hamsun sýnir var honum snemma ljóst að
hann ætlaði ekki að skrifa eins og norski meistarinn. Og hann ætlaði heldur
ekki að skrifa ádeilusögu um vonda presta í anda íslensks natúralisma. Hann
varð að finna sína eigin leið.
I næstu tilraun, uppkastinu Heiðinni sem Halldór skrifaði undir lok
Ameríkudvalar sinnar 1929, er byrjað að móta fyrir þeirri leið. Hvað varð til
þess að skýra sjónarhornið? Öðru fremur eflaust nánari kynni Halldórs af
viðfangsefninu, sem hann öðlaðist meðal annars með ferð sinni um Austfirði
undir árslok 1926. Heimsókn sinni á afskekkt kot sem mun hafa verið
Sænautasel lýsti hann í grein árið 1927 (síðar á bók í Dagleið á fjöllum undir
heitinu Skammdegisnótt á Jökuldalsheiði), og einsog oft hefur verið bent á
má þar bæði finna gömlu konuna með mjólkurílöngunina og bóndann sem
tekur velferð sauðfjárins fram yfir langanir fólksins á bænum, og gengur
hvort tveggja aftur í Sjálfstæðu fólki. Frásögnin frá Jökuldalsheiði var hluti
af greinaflokki Halldórs í Alþýðublaðinu vorið 1927 er nefndist Raflýsing
TMM 1996:3
73