Tímarit Máls og menningar - 01.09.1996, Blaðsíða 49
staðið við bakið á mér. Þegar ég var veikur. Lánaði mér. Aldrei borgað.
Foreldrar mínir. Hreykin af skáldinu. Alltaf að tala um það. Þoldi það
ekki. Konurnar mínar. Börnin mín. Yngsti drengurinn. Augun. Augun
hans. Af hverju horfa þau svona á mig? Pabbi — En ég? Ég hef aldrei
elskað þau. Ekkert þeirra, Steinn. Það er meinið. Ég hef aldrei kunnað
að elska aðra manneskju. Ég hef elskað ljóð. Ég hef elskað ljóðin þín,
Steinn. En ekki fólk. Ekki fólk. Af hverju get ég ekki einu sinni elskað
börnin mín? Segðu mér það. Ég — ég bið þig. Segðu mér sannleikann.
Þú vilt kannski ekki særa mig en mér er alveg sama um sársaukann.
Ég verð að fá að vita sannleikann. Láttu það koma. Var það hrokinn,
Steinn? Ég veit að hann er verstur af dauðasyndunum sjö. Var það það
sem ég sagði við gröf þína fyrir tuttugu árum? En þetta voru bara orð,
Steinn. Og ekki einu sinni orð. Aðeins hugsanir. Hvernig geta hugsanir
haft bölvun í för með sér? Ég bið þig. Svaraðu mér. Ég verð —
Hann lét fallast niður í grasið með hálfkæfðri grátstunu. Axlirnar
gengu upp og niður í krampakenndum hreyfmgum og niðurbældur
gráturinn var undarlega hljómlaus.
— Af hverju ertu að gráta?
Hann kipptist við. Reis upp við dogg og þurrkaði snöggt framan úr
sér með frakkaerminni.
Lítill drengur, á að giska átta ára, stóð álengdar og horfði á hann
alvarlegur á svip. Hann var í mórauðri peysu og bláum gallabuxum
með jarpt hár og stór, dökk augu.
— Hvaðan kemur þú, drengur minn? sagði skáldið dimmum rómi.
— Ha, ég? Ég kem bara úr Kópavoginum.
— Áttu heima þar? spurði skáldið og færði sig til svo bakið nam við
legsteininn.
— Já, sagði drengurinn og hafði ekki augun af skáldinu.
— Og hvað ert þú að gera hér svo snemma morguns? sagði skáldið
og ræskti sig.
— Ég er að heimsækja afa minn.
— Nú, býr hann hérna í grenndinni? Skáldið litaðist um.
— Ha, nei, sagði drengurinn og roðnaði. Hann er dáinn. Ég kem
svo oft að heimsækja hann. Ég kalla það að fara í heimsókn. Hérna er
steinninn hans, sagði hann og klappaði á legsteininn við hlið sér.
Skáldið þagði og horfði á drenginn sem hélt áfram að strjúka
legsteininn, fínum, mjúkum hreyfingum.
TMM 1996:3
47