Tímarit Máls og menningar - 01.09.1996, Blaðsíða 90
mátti segja að Þórður brygðist við tilkomu Kaupfélagsins af skammsýnni
heift og hörku er hann hugðist svelta héraðsmenn til hlýðni og hollustu við
kaupmannsverslunina. Á hærra og víðara plani háði Benedikt langa og
harðvítuga ritdeilu við Einar skáld Benediktsson um markmið og mismun
kaupmannaverslunar og kaupfélagaverslunar. Fór sú deila einkum fram í
blaði Einars, Dagskrá, og Fjallkonunni, en einnig á síðum annarra blaða.
Þó að Benedikt teldi sig sósíalista á árunum kringum aldamótin síðustu
var hann þó á þeim árum gallharður flokksmaður Heimastjórnarflokksins
og barði ótæpilega á höfuðandstæðingnum, valtýingum. Þóttist hann í
Heimastjórnarflokknum eygja vaxtarsprota til þjóðlegs sósíalisma þar sem
valtýingar aftur á móti væru maðksmognir af alþjóðlegum kapítalisma. Um
þessi efni háði hann gríðarlega harða ritdeilu við sýslunga sinn Guðmund
skáld Friðjónsson á Sandi og fór hún fram í Stefni og Bjarka.
Enn er þess að geta að á róttækasta skeiði sínu var Benedikt mjög gagn-
rýninn á klerka og kirkju samtíðar sinnar þó að hann skrifaði ekki opinber-
lega um þau efni, en þetta kemur vel fram í bréfum hans t.a.m. til Kristjáns
Jónasarsonar og Valdimars Ásmundssonar þar sem hann hælist yfir því að
þær bókmenntir sem hann láti kaupa til bókafélags Ófeigs í Skörðum og
félaga séu algjörlega heiðnar og vonast til að þær hafi heldur bætandi áhrif
á prestana sem fái að lesa þær.
Þó að vakning færi raunar að einhverju marki um allar byggðir íslands á
síðasta fjórðungi 19. aldar, hygg ég að það sé ekki ofmælt að þingeyskt
mannlíf um aldamótin síðustu hafi fremur en í flestum eða öllum öðrum
héruðum verið mótað af samtíma menningarstraumum í Vestur-Evrópu og
á Norðurlöndum. Þetta birtist í vakandi pólitískri vitund, margháttuðu
lifandi félagslífi, listrænni sköpun skáldskapar og viðleitni til að njóta hins
fagra í tónlist og myndlist.
Hvað þarf til að slík bylgja rísi? Var þetta kannski allt saman Benedikt á
Auðnum að þakka?
Fjarri sé mér að halda slíku fram. Þó að maðurinn sé sjálfsagt ávallt einn
í innstu veru sinni, er enginn maður eyland.
Þegar við skoðum sögulega verðandi liðinna tíma verður okkur stundum
að spyrja hvað í atburðarásinni sé sprottið af einhvers konar sögulegri eða
félagslegri nauðsyn og hvað eigi rætur í athöfnum ákveðinna einstaklinga.
Með öðrum orðum: Hver er þáttur félags og hver er hlutur einstaklings í
sögulegri þróun?
Hefðu íslendingar ekki þokast í átt til stjórnarfarslegs sjálfsforræðis á 19.
öld þó að Jón Sigurðsson hefði aldrei fæðst? Hefði þingeyskt mannlíf ekki
verið með svipuðum hætti og það var um síðustu aldamót þó að Benedikt á
Auðnum hefði aldrei starfað í héraðinu?
88
TMM 1996:3