Tímarit Máls og menningar - 01.09.1996, Blaðsíða 69
ritað áður um það — hvað er líkt með þeim?2 Hvað lærði Halldór af
Hamsun? Þessar og skyldar spurningar eru efni eftirfarandi hugleiðinga.
* * *
Báðum þessum höfundum gafst um ævina tveggja heima sýn; Halldór er nær
jafn gamall öldinni og Hamsun var á tíræðisaldri þegar hann lést — hvor
um sig gat borið allt að því íjarstæðukenndum félagslegum umbyltingum
vitni. En þótt þeir hafi verið samferðamenn í næstum hálfa öld, ber það á
milli að Hamsun er í grundvallarhugsun sinni 19. aldar maður. Hann styður
Þjóðverja í seinni heimsstyrjöldinni einsog hver annar pólitískur steingerv-
ingur vegna þess að hann fylltist ungur maður andúð á Englendingum —
meðal annars fyrir sprengjuárás þeirra á Alexandríu (1882) og vegna Búa-
stríðsins. Ævisagnaritari hans Robert Ferguson orðar það svo:
Það var umfram allt sérviskulegt og öfgakennt Englendingahatur
(anglofobi) Hamsuns sem réð því að hann var trúr Þýskalandi í
hálfa öld, hvað sem á dundi, og sem varð til þess að lokum að hann
var ákærður fyrir landráð árið 1945.3
Þótt Halldór Laxness sé í alla staði 20. aldar maður hefur hann líka lifað
tvenna tíma, í þjóðfélagslegum sem bókmenntalegum skilningi. Eitt lítið
dæmi finnst mér segja meira um það en löng útlistun: Danski rithöfundur-
inn Johannes Jorgensen, sem átti mestan þátt í að útvega Halldóri ungum
pláss í klaustri, gaf út sína fyrstu bók árið 1887. Nákvæmlega eitt hundrað
árum síðar þakkaði Halldór honum liðveisluna í inngangsorðum sínum að
klausturdagbókinni, Dagar hjá múnkum.
Fleira tengir þessa höfunda en hár aldur—og þá kannski öðru fremur að
hvað sem módernískum áhrifum líður skrifuðu þeir lengst af skáldsögur í
raunsæisformi (í víðum skilningi); í þeim bókum sem hér um ræðir ætluðu
báðir að koma ákveðnum boðskap á framfæri, og urðu að takast á við
þverstæðu raunsæisins einsog síðar verður vikið að.
Halldór var ekki nema 19 ára þegar hann snerist öndverður gegn Hamsun
á prenti, löngu áður en hann hafði til þess pólitískar ástæður, með frægum
ritdómi sínum um Konerne ved vandposten (í Morgunblaðinu 15/9 1921).
Honum þótti bókin full mannfyrirlitningar, og skýtur föstum skotum á
Markens grode í leiðinni, sem hann kallar bókina um „De velsignede Potet-
er“, blessaðar kartöflurnar.4 Jarðeplapostilluna hafði Halldór lesið tveimur
árum áður, í fyrstu utanlandsför sinni í Danmörku, og fundið alla töfra á
sínum stað, ölvast en vaknað með pólitíska timburmenn ef marka má
vitnisburð hans löngu síðar í Úngur eg var: „Hvað varðar bændur þó einn
bóndi af hundrað, ísak á Sellanraa, verði ríkisbubbi á sveitabúskap?“ og bætir
L
TMM 1996:3
67