Ritið : tímarit Hugvísindastofnunar - 01.01.2011, Page 3
3
Háskólinn á tímum kreppu
Háskólar eru meðal mikilvægustu stofnana samfélagsins, um það er ekki
deilt. Samfélag þekkingar og rannsókna – drifkraftur framþróunar á öllum
sviðum – er óhugsandi án háskóla. Samt sem áður er staða hans í samtím-
anum óljós og ótrygg. Á sama tíma og þrástagast er á mikilvægi æðri
menntastofnana, vaxa efasemdir um háskólanám og um gagnsemi og gildi
rannsókna. Bein hagnýtingarþörf hefur vakið upp efasemdir um klassíska
háskólamenntun og krafa um hagræn áhrif af rannsóknum skapar tor-
tryggni gagnvart óhagnýtum viðfangsefnum. En um leið eru afleiðingar
markaðsvæðingarinnar flestum ljósar. Þetta hefur ekki síst sést í íslenskri
umræðu fyrstu misserin eftir efnahagshrunið 2008, en ábyrgð háskólasam-
félagsins var m.a. rædd í 8. bindi Rannsóknarskýrslu Alþingis, þar sem
bent er á hættu hagsmunaárekstra við viðskiptavæðingu háskólastarfsins í
ljósi þess að:
siðfræði vísinda og siðferði í viðskiptum fer illa saman.
Rannsóknir í Bandaríkjunum hafa sýnt að háskólakennarar þiggi
ekki aðeins í vaxandi mæli styrki frá fyrirtækjum til að fjármagna
rannsóknir sínar, heldur séu þeir og háskólarnir einnig iðulega
sjálfir hluthafar í fyrirtækjunum eða fjárhagslega tengdir þeim
með öðrum hætti. Færð hafa verið rök fyrir því að þetta dragi úr
heiðarleika fræðimanna, þrengi sjóndeildarhring þeirra og val á
viðfangsefnum rannsókna.1
1 Vilhjálmur Árnason, Salvör Nordal og Kristín Ástgeirsdóttir, Siðferði og starfshættir í
tengslum við fall íslensku bankanna 2008, 8. bindi skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis
(Aðdragandi og orsakir falls íslensku bankanna 2008 og tengdir atburðir). Reykjavík 1.
mars 2010, bls. 212–213. Höfundar skýrslunnar vísa máli sínu til stuðnings í grein
Eyal Press og Jennifer Washburn: „Háskólar á framfærslu fyrirtækja“ sem Magnús
D. Baldursson þýddi og stytti. Fréttabréf Háskóla Íslands, 3. tbl. 22. árg. ágúst 2000.
Ritið 1/2011, bls. 3–9