Ritið : tímarit Hugvísindastofnunar - 01.01.2011, Page 12
IRMA ERLINGSDÓTTIR
12
vald eða einangra sig í nafni skilyrðislauss frelsis. Þvert á móti á háskólinn
að leiða samræðuna milli þessara tveggja ólíku þátta, vera á stöðugri hreyf-
ingu, fram og til baka milli hins skilyrta og hins óskilyrta. Þannig háskóli
þarf alls ekki að vera takmarkaður við háskólastofnun og ætti í samvinnu
við öfl utan fræðasamfélagsins að spyrna gegn birtingarmyndum fullveldis.
Á þann hátt gæti háskólinn veitt valdhöfum af ýmsu tagi andspyrnu og
gagnrýnt þjóðríkið og draumóra þess um óskorað fullveldi og jafnframt
allt vald sem takmarkar opið lýðræði. Háskóli sem andæfir valdinu með
þessu móti er án landamæra.4
Í greininni verður lagt út af ofangreindri útopíu eða „staðleysu hins
óskilyrta“ með því að setja hana í samhengi við íslenskt háskólasamfélag
fyrir og eftir efnahagshrunið. Á sýndarárum uppsveiflunnar í íslensku
efnahagslífi 2002 til 2008 áttu íslenskir háskólar lítið sameiginlegt með
hinum skilyrðislausa háskóla. Ástæðuna má ekki aðeins rekja til beinna
afskipta stjórnmálaflokka heldur þjónuðu sumir þeirra markmiðum við-
skiptavaldsins í formi fyrirtækjamenningar og neytendaþjónustu. Í öðrum
tilvikum dró háskólasamfélagið sig inn í eigin skel, lét undan ofurvaldi
hugmyndafræði sem gagnsýrði stjórnmál og önnur samfélagssvið. Þótt
háskólinn hafi ekki afsalað sér sjálfræði/sjálfstæði á öllum sviðum gaf hann
frá sér tækifæri til að spyrna við fótum og reyna að setja fram önnur gildi.
Á þessu tímabili varð hann háðari markaðsöflum og stofnanavæðingu sem
kom utan frá. Eins og rætt verður hér gróf þessi þróun undan þjóðfélags-
gagnrýni, þverfaglegu samstarfi og leiddi til aukinnar kerfishugsunar í
háskólastarfi. Í stuttu máli má segja að markaðshugmyndafræðinni hafi
tekist að móta starf og matskerfi háskóla á sviði rannsókna og kennslu.
Þegar spurt er um ábyrgð háskóla og menntamanna á því kerfishruni
sem varð á Íslandi verður greining Derrida á hlutverki háskóla enn brýnni.
Eins og leitast verður við að sýna fram á er háskóli samtímans í kreppu
vegna þess að hann er rígbundinn stofnunum ríkisvaldsins og tæknilegum
kröfum markaðarins. Derrida taldi að hin „nýja ábyrgð“ háskóla ætti ein-
mitt að felast í því að draga í efa tæknihyggju, þ.e. „atvinnumennsku“, sem
miðast við háskólastarf sem byggir á grundvelli framboðs og eftirspurnar
eða tæknilegum fyrirmyndum eins og „hæfnisviðmiðum“.5 Hann glímdi
að þessu leyti við tvær hefðir sem þróuðust í kjölfar gagnrýni Nietzsches á
háskólastofnanir á 19. öld. Annars vegar bentu fræðimenn á borð við
4 Jacques Derrida, L’université sans condition, bls. 6.
5 Jacques Derrida, L’université sans condition, bls. 24.