Ritið : tímarit Hugvísindastofnunar - 01.01.2011, Page 23
AF VEIKUM MæTTI
23
inn má ekki vera hlekkjaður innan þjóðríkisins eða fullveldisins heldur á
hann að þróast á þverþjóðlegum og lýðræðislegum forsendum.
Ef yrkið á að eiga sér stað á mörkum hins skilyrta og óskilyrta þarf
háskóli sem vettvangur hugsunar og andspyrnu gegn valdastofnunum –
sviðum samfélagsins eða „hugmyndafræðilegum stjórntækjum ríkisins“,
eins og Althusser orðaði það – að setja fram skapandi gagnrýni.30 Skilyrðis-
leysi er ekki bundið við akademískt frelsi því að það er unnt að nota til að
einangra sig innan stofnanaveggja og sniðganga samfélagslega ábyrgð.
Háskólastarfið á að ganga út á játningu, það að lýsa yfir, staðfesta, gangast
við einhverju. Slík trúarjátning tengist skáldskap sem birtingarformi.
Þannig gerir skilyrðislausi háskólinn meiri kröfur en þær sem felast í trúar-
játningu eða skriftum sem einvörðungu eru bundnar við einkasviðið. Að
því leyti á hann mikið skylt við skáldskap og bókmenntir. Hann þarf sér-
staklega að spyrna við ofurvaldi sérfræðisýnar á þekkingu, eins og hér
hefur verið lögð áhersla á. „Atvinnumönnum“ nægir að sækjast eftir við-
urkenningu frá öðrum sérfræðingum og með því firra þeir sig samfélags-
legri ábyrgð. Því þarf hinn verðandi háskóli að mynda rými á mörkum
stofnana og hugmynda til að berjast gegn valdi – hvort sem það er ríkisvald
eða viðskiptavald – sem reynir sífellt að sniðganga háskólasamfélagið eða
tæla það í þeim tilgangi að móta það að eigin fyrirmynd. Ef slíkur vísir að
vettvangi myndast verður til samfara honum vísir að skilyrðislausum,
landamæralausum háskóla.
30 Sjá Louis Althusser, „Hugmyndafræði og hugmyndafræðileg stjórntæki ríkisins
(rannsóknapunktar)“, þýð. Egill Arnarson, í Magnús Þór Snæbjörnsson og Viðar
Þorsteinsson (ritstj.), Af marxisma, Reykjavík: Nýhil, 2009, bls. 175–228.