Ritið : tímarit Hugvísindastofnunar - 01.01.2011, Page 35
35
RÓTTæKUR HÁSKÓLI – TVÍRæÐUR HÁSKÓLI
irbæri og engin tiltekin rökræn afstaða getur nýst sem heildarlíkan til að
leysa samtímavanda á borð við þann sem við blasir um háskóla.
Einfaldar lausnir byggja gjarnan á einfeldningslegri greiningu á vanda
og greining Nussbaum sýnir að hún sér vanda háskólans í ljósi einfaldra en
sterkra hagsmuna atvinnu- og viðskiptalífs. En þessir hagsmunir eru
aðeins hluti af skýringunni á því hvers vegna húmanískar greinar eiga
undir högg að sækja. Sú vantrú á gildi þeirra sem finna má fyrir í samfé-
laginu á sér flóknari skýringar en þær að viðskiptalífið viðurkenni ekki
þörfina fyrir þær. Hvernig stendur á því að virðingin fyrir „fræðum“ hefur
minnkað – að staða háskólamannsins sem eins konar kennivalds hefur
veikst, að hlutverk háskólakennarans er í augum almennings miklu fremur
fólgið í því að þjónusta og miðla, heldur en að rökræða, greina og skapa
nýja þekkingu? Það er ekki ólíklegt að ástæðan sé að minnsta kosti að hluta
til fólgin í því að samfélag rannsakenda og kennara í háskólum hefur
stækkað gríðarlega. Menntunarstig hefur hækkað – sex sinnum fleiri
stunda nú háskólanám í Bandaríkjunum svo dæmi sé tekið heldur en fyrir
sextíu árum, og hér á Íslandi er þróunin jafnvel enn dramatískari. Sjö sinn-
um fleiri nemendur skráðu sig til náms við íslenska háskóla árið 2006 en
höfðu gert það 30 árum fyrr.15
Þeir sem tilheyra háskólasamfélaginu eru því stærri og fjölbreytilegri
hópur en var fyrir nokkrum árum, ný viðhorf til fræða og fræðaiðkunar
hafa rutt sér til rúms, hugmyndir fólks um tengsl fræða og framkvæmda
hafa breyst. Virðingartáknin sem áður voru ótvíræð hafa glatað merkingu
sinni. Lærdómstitlar gáfu áður til kynna stöðu og vægi, háskólastöður fólu
í sér starfsheiti sem höfðu þunga samfélagslega og menningarlega merk-
ingu. Þetta hefur breyst og um leið hefur öll áferð háskólans breyst. Hann
er ekki lokuð stofnun sem velur af kostgæfni þá sem fá leyfi til að athafna
sig innan hans. Hann er opinn í báða enda, einskonar krossgötur þar sem
fólk mætist, hefur stutta eða langa viðdvöl eftir atvikum, og sameinast um
önnur verkefni en þau sem lífið utan háskólans hefur upp á að bjóða. Þessi
veruleiki krefst dýpri greiningar en þeirrar sem Nussbaum setur fram.
Hlutlægniskrafa vísindanna er ekki aðeins krafan um rökræðuna gegn
valdi hagsmunanna. Rökræðan og hagsmunirnir eiga sér sameiginlegt líf
og að hluta sameiginleg markmið. Vísindapólitík getur aldrei verið hlut-
15 Chronicle of Higher Education. http://chronicle.com/article/Adults-With-College-
Degrees-in/125995/ (sótt 15. janúar 2011); Hagstofa Íslands: hagstofa.is »
Talnaefni » Skólamál » Háskólar, tölur um nemendafjölda 1977–2006. 2249 inn-
rituðust árið 1977 en 16738 árið 2006.