Ritið : tímarit Hugvísindastofnunar - 01.01.2011, Side 38
38
JÓN ÓLAFSSON
innan háskólans heldur einnig út yfir múra háskólasamfélagsins.“20 Hann
sér fyrir sér margvísleg tengsl háskóla, stofnana, frjálsra félagasamtaka og
fyrirtækja, í þágu sameiginlegra hagsmuna nýsköpunar og þekkingarfram-
leiðslu.
Hugmyndir Taylors eru í sjálfu sér ekki nýjar af nálinni. Undanfarna
tvo til þrjá áratugi hafa tengsl háskóla og atvinnulífs verið í forgrunni
háskólaumræðunnar. En sú umræða hefur verið yfirborðskennd (og það á
við um Ísland ekki síður en önnur lönd). Hún hefur fyrst og fremst náð til
æskilegra eða óæskilegra áhrifa fyrirtækja á starfsemi háskóla, en lítið farið
út í sameiginleg eða ósamrýmanleg markmið háskóla og fyrirtækja.
Hugmyndir Taylors eru ekki hin dæmigerða krafa um að fulltrúar atvinnu-
lífsins komi með einhverjum hætti inn í háskólana, heldur byggja þær á
annarri kröfu (reyndar ekki óskyldri) um að brotnir verði niður þeir múrar
sem (í einhverjum skilningi) afmarka háskólann frá samfélaginu. Há -
skólanám verður í auknum mæli nokkurskonar netsamstarf þar sem nem-
endur læra frá fyrsta degi að vinna einir og með öðru fólki að því að afla
þekkingar, greina og leysa vandamál og takast á við verkefni sem eru í senn
nám og nýsköpun.21
IV.
Myndin sem Nussbaum og Taylor draga upp varðar bandarískt háskóla-
samfélag en vandinn er alþjóðlegur. Staða háskólans er að breytast, hún
virðist vera að þróast til hins verra, en það er ekki fyllilega ljóst hvað er til
ráða. Staða mála er mótsagnakennd. Stjórnvöld í flestum löndum gera
mikið úr mikilvægi háskólamenntunar og hverskyns vísindarannsókna, en
á sama tíma er sótt að háskólanum félagslega, pólitískt og menningarlega.
Nussbaum leggur áherslu á að háskólinn þurfi að varðveita klassíska
menntahugsjón. Hún er ómissandi þáttur til að þeir geti rækt það hlutverk
sitt að veita nemendum undirstöðumenntun sem geri þá hæfa til að hugsa
á sjálfstæðan, gagnrýninn og skapandi hátt um sjálfa sig og verkefni sín.
Taylor leggur áherslu á hvernig háskólinn verði að breytast, laga sig að
samfélaginu og bjóða upp á rannsóknir og kennslu sem skipti máli fyrir
þau viðfangsefni sem eru efst á baugi hverju sinni. Nussbaum bendir á að
háskólinn verði að vera gagnrýninn á bólur samfélagsins, vera málsvari
greiningar og gagnrýni frekar en vettvangur sem keppir við fyrirtækin um
20 Mark Taylor, Crisis on Campus, bls. 155.
21 Mark Taylor, Crisis on Campus, bls. 139–179.