Ritið : tímarit Hugvísindastofnunar - 01.01.2011, Page 43
RÓTTæKUR HÁSKÓLI – TVÍRæÐUR HÁSKÓLI
43
Það er nákvæmlega þessi vandi sem hefur getið af sér þá óheilbrigðu
(og í raun röngu) sýn á íslenskt háskólasamfélag að þar standi Háskóli
Íslands vörð um fjölbreytni rannsókna og varðveislu menntahugsjónarinn-
ar, á meðan aðrir skólar, og þá einkum svokallaðir einkaháskólar, ásælist
opinbert fjármagn til að starfrækja atvinnulífstengdar greinar.30 Stjórnvöld
geta styrkt háskólasamfélagið með vel hugsaðri og vel útfærðri mennta-
stefnu sem stuðlar að sjálfstæði þess gagnvart ytri öflum sem hafa meiri
áhuga á því að notfæra sér háskólana í tilteknum afmörkuðum tilgangi en
að stuðla að því að háskólasamfélagið sjálft styrkist.
V.
Ég byrjaði þessa grein á að lýsa háskólanum sem mótsagnakenndu fyrir-
bæri. Hann er mótsagnakenndur vegna þess að hlutverk hans hefur alltaf
verið að rúma togstreitu, gagnrýni, ágreining og samkeppni sem nauðsyn-
leg er til að tryggja eðlilegan viðgang hugsunar. Það mætti halda því fram
að háskólinn sé deyjandi í þeim skilningi að það er óhugsandi að ein stofn-
un geti skapað sér þá stöðu nú, sem margir helstu háskólar fyrri tíma
höfðu. En dauði háskólans sem stofnunar er um leið endurfæðing háskól-
ans í formi sem endurspeglar styrk hans og vægi ennþá frekar en áður.
Háskólasamfélagið tekur við því hlutverki sem háskólinn sem stofnun
hafði áður. Háskólasamfélagið er í senn þjóðlegt og alþjóðlegt, einsleitt og
margbrotið og margskipt.
Í ritum Nussbaum og Taylors sem hér hefur verið fjallað um er einn
rauður þráður sem ekki er alltaf meðvitaður hluti frásagnar þeirra. Það er
sú staðreynd að það er orðið ómögulegt að hugsa sér rannsóknir sem ekki
ná til hóps langt út fyrir eina stofnun og í mörgum tilfellum út fyrir eitt
land. Sama má segja um kennslu. Það verður algengara og algengara að
nemendur stundi nám við marga háskóla á sama tíma, ferðist á milli landa
meðan á grunnnámi eða framhaldsnámi stendur og svo framvegis.
Hættan sem steðjar að háskólasamfélaginu er kannski þegar öllu er á
botninn hvolft innri sundrung, átökin á milli háskóladeildanna, átökin um
30 Hugtakanotkunin er reyndar ekki alveg nákvæm. Einkaskóli er strangt tekið skóli
í einkaeigu einstaklings eða fyrirtækis sem þar með getur mótað starfsemi hans og
ákveðið tilgang hennar. Aðeins Háskólinn í Reykjavík er einkaháskóli í þessum
skilningi. Háskólinn á Bifröst og Listaháskólinn eru sjálfseignarstofnanir og eru
því ekki í eigu einkaaðila. Sjálfseignarstofnanir starfa samkvæmt stofnskrám sem
yfirleitt tryggja að enginn einn aðili geti stýrt þeim eða mótað starfsemina í sína
þágu.