Ritið : tímarit Hugvísindastofnunar - 01.01.2011, Page 47
47
Samfélagið og hlutverk háskóla
Í kjölfar mikils umróts í íslensku þjóðlífi vegna hruns efnahagskerfisins er
skynsamlegt fyrir borgara í íslensku samfélagi að staldra við og velta því
fyrir sér hvers konar samfélag þeir vilji móta. Í framhaldi af því ættu þeir
sem starfa í háskóla að setja fram hugmyndir um hvaða hlutverki við telj-
um að háskólar og háskólasamfélagið ætti að gegna í þeirri mótun. Í bók
minni, Inventing Tomorrow’s University. Who is to take the lead? set ég fram
þá skoðun að háskólafólki beri að eiga frumkvæði að endurskoðun á hlut-
verki háskóla, m.a. hvað varðar þátt þeirra í mótun samfélagsins.1 Það er
ekki víst að óskir eða hugmyndir okkar sem starfa innan háskólanna séu
svo margbrotnar eða umdeildar þegar upp er staðið, en við ættum samt að
gefa okkur gott tóm til þess að velta þeim fyrir okkur.
Ég tel almenna samstöðu í þjóðfélaginu vera um að öllum beri að vinna
stöðugt að því að þróa lifandi og frjótt samfélag sem einkennist af efna-
hagslegri, félagslegri og menningarlegri velferð; réttlátt samfélag þar sem
jafnræði ríkir meðal fólks; samfélag sem hvetur til sjálfstæðis, frumkvæðis
og sköpunar, en þar sem jafnframt er tekið tillit til þeirra sem veikast
standa. Ég tel að samstaða sé um þessi atriði, þegar þau eru þannig almennt
orðuð, en á hinn bóginn er grundvallarágreiningur í samfélaginu bæði um
markmið og um leiðir í nánast öllum smærri atriðum. Í umræðu um þessi
mál þarf að mínu mati að viðurkenna að félags- og menningar auður skipti
ekki síður máli en efnahagsleg auðlegð. Það þarf að ræða þessi mál frá
mörgum hliðum, en ég hyggst takmarka mig við hugsanlegt hlutverk
1 Jón Torfi Jónasson, Inventing tomorrow’s university. Who is to take the lead?, Bologna:
The Magna Charta Observatory, 2008.
Jón Torfi Jónasson
Háskólar
og gagnrýnin þjóðfélagsumræða
Ritið 1/2011, bls. 47–64