Ritið : tímarit Hugvísindastofnunar - 01.01.2011, Blaðsíða 53
53
HÁSKÓLAR OG GAGNRýNIN ÞJÓÐFÉLAGSUMRæÐA
eigi síður við um starfsfólk háskóla af þremur skyldum ástæðum. Í fyrsta
lagi er háskólakennari valinn til starfa eftir ströngu regluverki á þeim for-
sendum að hann þekki betur til tiltekins sérsviðs en aðrir og sé af þeim
sökum dómbærari á það en samstarfsmenn, þar á meðal yfirmenn hans; í
raun er ekki litið svo á að háskólakennari hafi yfirmann þegar kemur að
umfjöllun hans um sérsvið sitt. Hann birtir t.d. greinar og heldur fyrirlestra
án þess að bera efnið nokkurn tíma undir stjórnendur háskólans. Í öðru
lagi er starfsemi háskóla skipulögð þannig að boðvald kerfisins nær yfir
margvíslegar starfsskyldur háskólakennara en ræður því ekki hvaða fræði-
leg sjónarmið hann lætur í ljós. Í þriðja lagi er sterk hefð fyrir því að
háskólakennari hafi akademískt frelsi og það feli einkum í sér að hann hafi
frelsi til þess að velja sér viðfangsefni á sínu verksviði, beita þeim rann-
sóknaraðferðum sem hann kýs og gera grein fyrir þeim eins og hann telur
best henta. Af þessum ástæðum hefur háskólamaðurinn meira frelsi til að
tjá sig en aðrir og þar með, að mínu mati, ríkari skyldur til þess.
Það er þrennt sem ég tel fylgja þessari sérstöðu háskólamannsins. Það
tengist skyldunni til að taka þátt í opinberri umræðu um fagleg deilumál á
sérsviði sínu þegar hann veit að faglegir jafningjar hans, sem starfa í öðru
umhverfi, geta það ekki eða telja sig ekki geta það í sama mæli.10
Það fyrsta er mikilvægi þess að hann sé í raun frjáls að því að láta í ljós
skoðanir sínar þótt ýmsum kunni að mislíka þær. Það vekur athygli þegar
almennir borgarar eða stjórnmálamenn eða jafnvel háskólafólk hafa krafist
þess að setja skyldi ofan í við, áminna eða jafnvel reka hinn eða þennan
vegna þess að viðkomandi var talinn láta í ljós óskynsamlegar skoðanir. Ég
tel að háskólasamfélagið eigi að skilja mikilvægi þess að stofnunin sýni sér-
stakt umburðarlyndi vegna þess hve varhugavert það er fyrir hana að vera
röngu megin línunnar um faglegt skoðanafrelsi. En hver sem er, þar á
meðal einstakir starfsmenn háskóla, geta aftur á móti gagnrýnt samstarfs-
fólk sitt að vild á faglegum forsendum eftir því sem faglegur metnaður
þeirra býður þeim.
lega frelsi þeirra almennt virkar. Það kann að vera munur á formlegu frelsi og því
frelsi sem fólk upplifir í starfi sínu. Sjá nánar Ragnhildur Helgadóttir, Tjáningar-
frelsi ríkisstarfsmanna. Lagadeild HÍ, 1997, óbirt lokaritgerð.
10 Sjá skoðanir Þorkels Helgasonar, þáverandi orkumálastjóra, á málþingi 2006 um
tjáningarfrelsi opinberra starfsmanna, þar sem hann telur að opin gagnrýnin fagleg
umræða megi fara fram innan stofnunar en ekki í sama mæli utan hennar. Það er
ljóst að hann vill hafa taumhald á gagnrýni samstarfsmanna sinna um fagleg mál-
efni hvað varðar opinbera umræðu, http://os.is/orkustofnun/frettir/nr/579 (skoð-
að 27. febrúar 2011).