Ritið : tímarit Hugvísindastofnunar - 01.01.2011, Page 56
56
JÓN TORFI JÓNASSON
krafan um fræðileg vinnubrögð er einmitt tilkomin vegna þessa ófullkom-
leika. Ef við værum óskeikul og fullkomlega nákvæm í daglegri samræðu
okkar, legðum alltaf sama skilning í öll hugtök sem við notuðum og eðlis-
læg kerfisbinding og rökvísi stýrði allri okkar vinnu væru ekki gerðar jafn
ákveðnar kröfur um að farið sé eftir reglum vísindanna og fræðaheimurinn
krefst, við myndum gera það sjálfkrafa. Vísindalegt verklag snýst um fjöl-
marga þætti, en þó ber tvennt hæst. Það á að auðvelda fræðilega samræðu
og skýra eftir því sem kostur er á hverju við byggjum ályktanir okkar. Þetta
krefst skýrra skilgreininga á hugtökum og aðferðum svo hvort tveggja sé
öllum ljóst. Þannig er hugsanlegt að endurtaka og gagnrýna það sem gert
var. Það krefst nákvæmra verklýsinga, tiltekinna kerfisbundinna vinnu-
bragða svo ekki verði hætta á að fordómar, hlutdrægni eða óskhyggja hafi
áhrif á niðurstöður og ályktanir. Við getum fallist á að vísindaleg umfjöllun
eigi að vera gagnsæ, hlutlaus og fordómalaus í þessum skilningi og fræða-
samfélagið hefur mótað verklagsreglur til að virða þá kröfu. Ólík fræðasvið
hafa mótað sér mismunandi reglur um þetta sem taka mið af efnum og
aðstæðum.
Vísindamenn eru auk þessa alls ekki hlutlausir í þeim skilningi að þeim
sé sama um viðfangsefni sitt og taki ekki afstöðu til mála sem það snerta;
þeim er langflestum annt um það svið sem þeir hafa helgað krafta sína.
Flestir eru tilbúnir til að berjast fyrir því að efla og auka virðingu síns fags.
Augljósustu dæmin eru e.t.v. þegar líffræðingar telja lífríkinu ógnað með
tilteknum framkvæmdum og láta í ljós áhyggjur sínar eða íslenskufræð-
ingar hafa áhyggjur af stöðu og þróun tungumálsins. Fræðimanni sem
hefur helgað sig umfjöllun um guðfræði, bókmenntir, sögu, – um lífríkið,
erfðavísa eða eðlisheiminn, er ekki sama hvernig um sérsvið hans er fjallað
eða hvernig niðurstöður sem hann á þátt í að setja fram eru notaðar. En
það er langt frá því að allir fræðimenn á sama sviðinu séu sammála um allt
sem snertir þeirra grein. Þvert á móti og til allrar hamingju er óvissa og
ágreiningur um margt í öllum fræðigreinum og það er einmitt viss spenna
sem er grundvöllur fyrir framþróun þeirra.
Fræðimenn eru þar að auki borgarar, fólk sem hefur skoðanir, hugsjónir
og trú. Þetta hefur áhrif þegar þeir móta og fylgja eftir hugmyndum sínum
og skoðunum á þeim málum sem þeir fjalla um. Áhrifanna gætir hvort sem
um er að ræða fræðileg málefni eða umfjöllun um stöðu, uppbyggingu eða
mótun fræðigreina. Fræðimönnunum er ekki sama og eru því ekki hlut-
lausir.