Ritið : tímarit Hugvísindastofnunar - 01.01.2011, Page 59
59
HÁSKÓLAR OG GAGNRýNIN ÞJÓÐFÉLAGSUMRæÐA
að nýjum sviðum og nýjum viðfangsefnum, en einnig eldri sviðum, þar
sem rannsóknarhefðir eru veikar og bolmagn til rannsókna er tiltölulega
lítið.
Umræðan um samkeppnissjóði snýst um það hvernig háskóla- og rann-
sóknarstarf eigi að þjóna samfélaginu. Hér er varað við því að vísindamenn
gleymi sér í hagsmunum sínum sem starfandi vísindamenn eða þröngum
hagsmunum fræðigreina sinna. Þeir verða jafnframt að líta til víðari hags-
muna samfélagsins sem nærir þá.
Virkir fræðimenn hafa iðulega sterka stundarhagsmuni alveg eins og
annað fólk. Þeir gætu hvatt til verkefna á vegum hins opinbera eða til til-
tekinna rannsókna eða látið hagsmuni fjársterkra aðila ráða ferðinni vit-
andi að þeir sjálfir eða nánir kollegar fengju aukið rannsóknarfé.16 Þeir
gætu líka varið pólitískar ákvarðanir sem tengdust fræðilegri ráðgjöf sem
þeir hefðu veitt, þeir gætu skirrst við að gagnrýna faglegar ákvarðanir
stjórnvalda vegna þess að það gæti komið niður á fjárveitingum til stofnana
þeirra eða vegna þess að nánir samstarfsmenn hefðu verið með í ráðum.
Þeir gætu látið undir höfuð leggjast að gagnrýna nána samstarfsmenn sína
vegna vináttutengsla, eða til að halda friðinn eða vegna þess að það myndi
rýra virðingu vinnustaðarins. Ekkert af þessu þarf þó að þýða að hagsmun-
irnir séu undirrót tillagna þeirra, afstöðu eða þagnar (sjálfsritskoðunar) –
þeir kunna samt sem áður að móta hegðun þeirra. Enn og aftur hamra ég
á því að fræðin eru heimur togstreitunnar um hið daglega brauð ekki síður
en togstreitu um fræðin sjálf.
Niðurstaða mín er sú að fræðimenn hafa hugsjónir og samvisku alveg
eins og annað fólk og þeir eiga einnig margvíslegra og oft mikilla hags-
muna að gæta. Allt þetta undirstrikar að þótt þeir hafi margt fram að færa
sem fræðimenn, og við krefjum þá um einkar vönduð og öguð vinnubrögð
og upplýsta gagnrýna umræðu, þá er óraunhæft að krefjast af þeim ómann-
eskjulegs hlutleysis. Við viljum það einfaldlega ekki – eða hvað? Við krefj-
um þá um þátttöku í umræðu um fræðileg málefni, sem faglega, sérhæfða
borgara og verðum að taka því (en ekki endilega þegjandi) þótt við vildum
stundum að þeir gerðu eða segðu hlutina á annan hátt.
16 Dæmi um áhyggjur manna koma m.a. fram í skýrslu breskra samtaka um ábyrgð
vísindamanna, sjá m.a. C. Langley og S. Parkinson, Science and the Corporate
Agenda, Scientists for Global Responsibility, UK, 2009. http://www.sgr.org.uk/
publications/science-and-corporate-agenda (skoðað 27. febrúar 2011).