Ritið : tímarit Hugvísindastofnunar - 01.01.2011, Page 60
60
JÓN TORFI JÓNASSON
Gagnrýnið hlutverk háskóla
Vilhjálmur Árnason ritaði nýlega grein um samfélagslega ábyrgð vísinda-
mannsins sem hann nefndi „Árvekni eða auðsveipni. Hlutverk hugvísinda-
manna í samfélagsumræðu“ en hann fjallar þar um hlutverk háskólamanna
á svipuðum nótum og hér er gert.17 Á undanförnum mánuðum hefur
einnig verið rætt um hugsanlegt andvaraleysi stjórnvalda eða opinberra
stofnana. Ég tek undir með Vilhjálmi að það sé gagnlegt að flétta þessi
hugtök inn í umræðu um hlutverk háskólasamfélagsins og spyrja að hvaða
marki það ætti – eða jafnvel að því beri – að sýna árvekni hvað varðar
tengsl fræðasviða sinna við samfélagið. Þetta gæti þýtt að háskólafólki sé
hreinlega skylt að taka ekki aðeins þátt í fræðilegri umræðu um sérsvið sín
heldur um fag sitt í víðri merkingu. Það gæti líka þýtt að einstakir fræði-
menn skuli halda samfélaginu upplýstu um umræðu og ágreining á sínu
sviði og beri að eiga frumkvæði að þeirri umræðu. Þeir geri grein fyrir
átakamálum – t.d. með því að flækja hvert mál og einfalda í senn – og séu á
þann hátt virkir gagnrýnir þátttakendur í umræðu um tengsl fagsins og
samfélagsins. Gagnrýnin felst í því að vera vakandi, upplýstur og fræðandi,
og í því að draga fram veikleika og styrkleika þess sem rætt er.
Reynslan sýnir að ekki þarf að hafa áhyggjur af því að fræðimenn séu
allir á sömu skoðun. Á hinn bóginn er líklegt að íhlutun fræðimanna ein-
kennist af andófi, annars vegar vegna þess að þeir stíga ekki fram fyrr en
þeir hafa áhyggjur af framvindunni, og hins vegar vegna þess að það er í
anda akademískrar hefðar að sýna fram á veikleika eða annmarka þeirra
hugmynda sem eru ráðandi hverju sinni. Sem fræðimenn ættu þeir því
sjaldnast að vera í því hlutverki að verja ríkjandi stöðu eða aðgerðir. Há -
skólastofnun verður að vera meðvituð um þetta og standa vörð um tján-
ingarfrelsi háskólafólks sem andæfir stefnu stjórnvalda eða sterkra hags-
munagæsluafla, án þess þó að taka afstöðu til efnislegs málflutnings
viðkomandi. Háskólafólk kann þó að vera íhaldssamt eins og aðrir, t.d.
getur verið að faghópar hafi hagsmuni af því að verja stefnu eða ástand sem
tryggir ítök þeirra eða sérstöðu eða fræðimenn verji skipan sem þeir hafa
átt þátt í að móta.
Pugwash samtökin,18 sem berjast fyrir útrýmingu kjarnorkuvopna eru
17 Vilhjálmur Árnason, „Árvekni eða auðsveipni. Hlutverk hugvísindamanna í sam-
félagsumræðu“, Ritið 9:2–3/2009, bls. 21–34.
18 Sjá heimasíðu Pugwash http://www.pugwash.org/about.htm um uppruna og
starfs hætti samtakanna (skoðað 27. febrúar 2011).