Ritið : tímarit Hugvísindastofnunar - 01.01.2011, Síða 61
61
HÁSKÓLAR OG GAGNRýNIN ÞJÓÐFÉLAGSUMRæÐA
gott dæmi um sérfræðinga sem láta sig skipta afleiðingar fræða sinna. Gott
dæmi um vanda vísindamanns birtist í sögu eðlisfræðingsins Roberts
Oppenheimer. Hann gegndi forystuhlutverki í smíði kjarnorkusprengj-
unnar og varð síðan virkur í umræðu um tengsl vísinda og samfélags. Með
frumkvæði sínu axlaði hann ótvíræða samfélagslega ábyrgð, en að vísu eftir
að sprengjan hafði verið notuð.19 Hann er að mínu mati merkileg fyrir-
mynd um virka þátttöku vísindamanns í samfélagslegri umræðu.
Við þurfum ekki að rýna lengi til að sjá að krafan um gagnrýna eða árvaka
þátttöku snertir allar fræðigreinar.20 Ekki aðeins eðlisfræðingana og kjarn-
orkuna, heldur alla þá sem tengjast umhverfismálum, loftslagsmálum, erfða-
vísindum, mengunarmálum, lyfjamálum, þróunaraðstoð, stjórnarskrármál-
um, hagstjórn, málstefnu, þróun lýðræðis, uppeldismálum, skólamálum,
fangelsismálum, bókmenntum og jarðeðlisfræði. Hér hef ég aðeins nefnt
dæmi um málefni sem mér hefur fundist íslenskt háskólafólk hafa tekið þátt
í að fjalla um, en þátttakan ætti að vera enn meiri, víðtækari og virkari.
Til þess að geta sinnt gagnrýnu hlutverki sínu þarf háskólasamfélagið að
samþykkja að það hafi miklar skyldur við þjóðfélagið. Það má ekki láta sem
daglegt amstur samfélagsins, vandamál þess, framtíðarsýn og ásetningur
um að þróast og dafna, komi því ekki við.
Jafnframt ætti að skoða hvernig það getur átt samskipti við umhverfi sitt
umfram það að að mennta þjóðfélagsþegna framtíðarinnar. Þau geta verið
allt frá því að taka þátt í þróunarstarfi fyrirtækja og stofnana, veita ráðgjöf
eða álit, halda fyrirlestra og ráðstefnur, og upplýsa, fræða og ræða á ýmsum
vettvangi.
En háskólasamfélagið og raunar samfélagið allt þarf jafnframt sífellt að
vera vakandi fyrir allri hagsmunatogstreitunni sem verður til með öllum
þessum samskiptum. Hún er mikil. Mestu skiptir að allir hagsmunir séu
19 Robert J. Oppenheimer taldi í lok síðari heimsstyrjaldar að kjarnorkusprengjan
væri hræðilegt vopn og vekti upp spurningar um hve holl vísindin væru fyrir
mannkynið. Hann sagði: „we have made a thing, a most terrible weapon that has
altered abruptly and profoundly the nature of the world. […] a thing that by all
standards of the world we grew up in is an evil thing. And by so doing […] we have
raised again the question of whether science is good for man […]“. R. J.
Oppenheimer, „Atomic Weapons“, Proceedings of the American Philosophical Society
90:1/1947, bls. 7–10. Þessi tilvitnun sýnir glöggt hve mikilvægt er að vísindamenn-
irnir sjálfir séu meðvitaðir um samfélagslegar afleiðingar verka sinna.
20 Til eru fjölmörg samtök vísindamanna sem beita sér í umræðu um samfélagsleg
áhrif vísindanna. Sjá t.d. European Network of Scientists for Social and Environmental
Responsibility (ENSSER, www.ensser.org ) og tengla þar sem vísað er til svipaðra
samtaka um allan heim (skoðað 27. febrúar 2011).