Ritið : tímarit Hugvísindastofnunar - 01.01.2011, Page 62
62
JÓN TORFI JÓNASSON
öllum sýnilegir en jafnframt að fólk geri sér grein fyrir hvernig hagsmunir
hafi áhrif á afstöðu þeirra til ólíkra mála. Þetta getur komið fram í stóru og
í smáu. Skipan heilbrigðismála, mennta- og velferðarkerfisins getur skipt
miklu máli fyrir heilu starfsstéttirnar sem háskólarnir mennta og braut-
skrá, og þess vegna ráðið afstöðu háskólakennara til stefnu stjórnvalda í
málefnum þeirra. Áætlanir stjórnvalda um virkjanir, um rannsóknarsjóði,
um skattlagningu sprotafyrirtækja eru dæmi um mál sem snerta háskóla-
samfélagið beint eða óbeint og beinlínis þær stéttir sem það útskrifar.
Möguleikar á innlendum styrkjum, norrænum styrkjum og Evrópustyrkjum
eru meðal mestu hagsmuna rannsóknasamfélagsins. Þetta eru örfá dæmi
um að stefna stjórnvalda, sem háskólamenn eiga oft aðild að, getur verið
mjög hagsmunatengd. Fjölmargir háskólamenn á öllum fræðasviðum
gegna hlutverki ráðgjafa við stjórnvöld eða fyrirtæki og eiga því talsverðra
hagsmuna að gæta sem einstaklingar; þeir snúast bæði um virðingu og fjár-
muni. Aðrir eru eignaraðilar að fyrirtækjum og það getur vitanlega einnig
skipt miklu máli þegar nálægð við hagsmunagæsluna er mikil. Margt
háskólafólk er virkt í stjórnmálum og það getur vitanlega haft áhrif á mat
þess á stefnu pólitískra stjórnvalda í mikilvægum málum. Hér er ekki verið
að amast við þessum tengslum, þvert á móti. En öllum verður að vera ljóst
að áhrif hagsmuna og hugsjóna og aðstæðna geta verið mikil og framkallað
hlutdrægni í málflutningi án þess að fela í sér nokkur óheilindi eða spill-
ingu.
Sífellt gefast tilefni til að skoða og endurskoða hve greiðar samskipta-
leiðir háskólasamfélagsins eru við umhverfi sitt. Sem dæmi má nefna gjör-
breytta stöðu dagblaða til alþýðlegra samskipta frá því sem var fyrir nokkr-
um árum. Háskólafólk hefur vitaskuld aðgang að alþjóðlegum fræðiritum,
íslenskum fræðiritum, og alþýðlegum tímaritum. Háskólafólk getur ekki
talið ljósvakamiðlana sína miðla þótt þeir séu þar mjög áberandi. Á síðustu
árum hafa heimasíður og fjölmörg rafræn verkfæri opnað alveg nýjan sam-
skiptaheim en við vitum allt of lítið um hvernig þessar nýju samskiptaleið-
ir virka. En það er bæði sjálfsagt og eðlilegt að nýta alla þessa möguleika.
Það er ekki nóg að hafa eitthvað að segja, það verður stöðugt að endur-
skapa þann vettvang sem til þess er. Háskólafólk verður að endurmeta
hvernig unnt sé að eiga gagnrýna og uppbyggjandi samræðu við allt sam-
félag sitt.