Ritið : tímarit Hugvísindastofnunar - 01.01.2011, Blaðsíða 63
63
HÁSKÓLAR OG GAGNRýNIN ÞJÓÐFÉLAGSUMRæÐA
Í lokin
Lifandi og gagnrýnin umræða ætti að vera um hvert samfélagið vilji stefna
og hvert sé samfélagslegt hlutverk háskóla í þeirri stefnu. Að mínu viti felst
það í rannsóknum og miðlun þeirra; til nemenda okkar, fjölmargra sam-
starfsaðila og samfélagsins alls, ekki síst með tillögum um hvernig hug-
myndir okkar og rannsóknir verði virkjaðar. Iðulega ætti miklu frekar að
tala um samstarf um þekkingarsköpun en um miðlun þekkingar.
Rannsóknarnefnd Alþingis telur að „[h]áskólamenn hefðu getað lagt
meira af mörkum í opinberri umræðu á grundvelli sérþekkingar sinnar“.21
Nefndin rekur jafnframt ýmis vandamál sem háskólamenn þurfa að glíma
við svo sem hagsmunaöfl sem vilja hefta gagnrýni og hagsmunaárekstra
háskólafólksins sjálfs. Hér hefur verið tekið undir bæði þessi sjónarmið.
Nefndin fjallar einnig um skort á siðareglum og efasemdir háskólamanna
um að þeir hafi einhverjum skyldum að gegna í samfélagslegri umræðu,
skyldum á borð við þær sem hér hafa verið reifaðar. Þátttaka í dægurum-
ræðu er ekki einfalt mál.
Í ljósi þess sem hér hefur verið rætt vaknar þó spurning um hvort ekki
eigi að ræða um tjáningarskyldu engu síður en um tjáningarfrelsi háskóla-
fólks. Þetta kann að vera framandi en er í samræmi við afstöðu siðanefndar
Rannsóknarnefndar Alþingis. Háskólar eru verkfæri samfélagsins til að
afla þekkingar og miðla henni, þar starfa sérfræðingar sem hafa þá sér-
stöðu að þeir vinna við að miðla þekkingu, þeir eru ekki formlega, a.m.k.
ekki lagalega, bundnir neinum sérstökum stundarhagsmunum, þótt þeir
kunni, því miður, að vera bundnir þeim óbeint. Þeir hafa, samkvæmt laga-
legri stöðu sinni, almennt meira svigrúm til að tjá sig en við á um fjölmarga
faglega jafningja þeirra, sem eru oft bundnir formlegum skorðum eða
hagsmunum. Háskólafólk ætti af þeim sökum að axla tjáningarskyldu mun
ákveðnar og skipulegar en hingað til hefur tíðkast.
Við, háskólafólk, ættum einnig að ræða hvernig við ræktum umræðu-
menningu og þá kröfu á hendur háskólasamfélag inu að vera virkt og til
fyrirmyndar um frumkvæði, aga, hófstillingu og lítillæti sem felur í sér við-
urkenningu á því að þeir sem eru á öndverðum meiði kunni að hafa gild
rök eða skýringar á afstöðu sinni, sem réttlæti málefnalega umræðu.
21 Vilhjálmur Árnason, Salvör Nordal og Kristín Ástgeirsdóttir, „Siðferði og starfs-
hættir í tengslum við fall íslensku bankanna 2008“, Aðdragandi og orsakir falls
íslensku bankanna 2008 og tengdir atburðir, ritstj. Páll Hreinsson, Sigríður Bene-
dikts dóttir og Tryggvi Gunnarsson, Reykjavík: Rannsóknarnefnd Alþingis, 2010.
Bindi 8. Viðauki 1.