Ritið : tímarit Hugvísindastofnunar - 01.01.2011, Síða 70
70
aldamótin er mögulega vísbending um breytingu á íslenskum atvinnu-
markaði – nánar tiltekið, breytt vægi þekkingar, einkum sérfræðiþekkingar
og formlegrar menntunar í íslensku atvinnulífi á tíunda áratugnum.
Án þess að hægt sé að segja til um beint orsakasamband má benda á að
upp úr miðjum tíunda áratugnum var komin fram grundvallarbreyting á
íslensku atvinnulífi sem jók eftirspurn eftir háskólamenntuðu starfsfólki á
sviðum viðskipta, lögfræði og félagsvísinda. Í Íslenskt viðskiptalíf – breyting
ar og samspil við bankakerfið, hagsögulegum viðauka við skýrslu Rannsóknar-
nefndar Alþingis frá 2010, lýsir Magnús Sveinn Helgason því nýja lands-
lagi íslensks atvinnulífs sem myndaðist á tíunda áratugnum, með endalokum
samvinnuhreyfingarinnar, einkavæðingu fyrirtækja í eigu ríkis og sveitar-
félaga, og samsvarandi hlutafélagavæðingu íslensks atvinnulífs. Smærri
fjölskyldufyrirtæki í heildsölu, smásölu og á dagvörumarkaði voru keypt
eða sameinuð í stærri hlutafélög, með þeim afleiðingum að stærri einingar
urðu ráðandi í öllum greinum íslensks atvinnulífs:
Lítil fjölskyldufyrirtæki, smákaupmenn, heildsalar og samvinnu-
hreyfingin höfðu einkennt eftirstríðsárin og síðari hluta 20. aldar.
Þau hurfu á fáeinum árum en í stað þeirra komu stórar keðjur. Þó að
margar þeirra hafi verið byggðar á fjölskyldufyrirtækjum stefndu
þær flestar á hlutabréfamarkað og var breytt í almenningshluta-
félög.5
Þessi breyting á innviðum íslensks atvinnulífs hélst í hendur við breyttan
tíðaranda þar sem ímynd viðskipta- og bankastarfsemi gekk í endurnýjun
lífdaga og öðlaðist nýjan ferskleika við stofnun Fjárfestingarbanka atvinnu-
lífsins (FBA) árið 1997 og ráðningu ungs, kraftmikils bankastjóra, Bjarna
Ármannssonar. Bankarnir voru ekki lengur helgidómar gráu jakkafatanna.
Þeir miðluðu fyrirtækjakaupum, hlutafélagavæðingu og skráningu á hluta-
bréfamarkaði, jafnframt því sem þeir tóku að nýta tækifæri sem mynduðust
eftir að opnað var fyrir fjármagnsflutninga til og frá Íslandi með EES
samningnum. Andlit þessa framtaks var hinn áræðni, háskólamenntaði
sérfræðingur, vopnaður tæknilegri þekkingu og alþjóðlegri sýn. Í þessum
anda skilgreindi FBA sig til dæmis sem „alþjóðlegt þekkingarfyrirtæki á
fjármálamarkaði“ frekar en sem banka.6
5 Magnús Sveinn Helgason, Íslenskt viðskiptalíf breytingar og samspil við fjármála
kerfið. Viðauki 5. Birtur með Skýrslu Rannsóknarnefndar Alþingis, Reykjavík: Rann-
sóknarnefnd Alþingis, 2010, bls. 84.
6 Sama rit, bls. 185.
GAuTI SIGþÓRSSON