Ritið : tímarit Hugvísindastofnunar - 01.01.2011, Síða 80
80
SvERRIR JAkObSSON
komandi kennara. Hið almenna menntakerfi Grikkja snerist mun frekar
um nám í því sem kallaðist enkyklios paideia og var skilgreint sem almenn
menntun – grunnmenntun í málfræði og mælskufræði. Vangaveltur um
heimspeki og náttúrufræði voru utan hins almenna kerfis; sérhæft við-
fangsefni þeirra sem þegar höfðu gengið í skóla.4 Gildi hinnar almennu
menntunar fólst ekki síst í því að með henni varð til sameiginlegur þekk-
ingarkjarni, grundvöllur orðræðu menntamanna, í gegnum áherslu skól-
anna á fáein rit (gr. ta biblia) sem þóttu hafa almenna menningarsögulega
skírskotun.5 Þessi kjarni tryggði viðhald þekkingar, en stuðlaði jafnframt
að íhaldssemi og hefðarhyggju varðandi grundvöll hennar.
Hinir frægustu skólar forn-Grikkja, t.d. Akademía Platons og Lykeion
Aristótelesar, voru þannig vissulega mennta- og orðræðusamfélög en nám
í þeim veitti ekki tiltekin, stöðluð réttindi. Námið var þó alls ekki álitið
óhagnýtt; þvert á móti var til þess tekið að Platon hefði menntað ýmsa
valda- og vísindamenn á meðan helsti keppinautur hans, Ísókrates, hefði
einungis kennt mælskulistarmönnum og leikskáldum.6 Hitt skiptir mestu
máli, að menntun af þessu tagi var hvorki samræmd né stöðluð að öðru
leyti en því að nemendur höfðu svipaðan bakgrunn; þekktu sömu grunn-
texta. Samt þrifust menntastofnanir fornaldar um langan aldur. Akademía
Platons starfaði t.d. fram á sjöttu öld e. Kr. og lagðist einvörðungu af
vegna þess að áherslur hennar þóttu of heiðnar. Fræðimenn Akademíunnar
fluttu þá til Persaveldis og þar starfaði skólinn fram á tíundu öld.7
Hin stöðluðu samkeppnispróf í Kína
Annað form æðri menntunar þróaðist á löngum tíma í Kína. Þar voru
menntastofnanirnar sjálfar ekki hinn miðlægi þáttur heldur samræmd próf
sem veittu aðgang að embættum. Hinar samræmdu prófgráður innan kín-
4 Sjá nánar Teresa Morgan, Literate Education in the Hellenistic and Roman World,
Cambridge: Cambridge University Press, 1998, bls. 33–39; Aude Doody, „Pliny’s
Natural History: Enkuklios Paideia and the Ancient Encyclopedia“, Journal of the
History of Ideas, 70:1(janúar)/2009, bls. 1–21, einkum bls. 10–17.
5 Raffaella Cribbiore, Gymnastics of the mind: Greek education in Hellenistic and Roman
Egypt, Princeton: Princeton University Press, 2001, bls. 247–48.
6 John Burnet, Greek Philosophy: From Thales to Plato, London: Macmillan and Co,
1914, bls. 219.
7 Sjá Alan Cameron, „The last days of the Academy at Athens“, Proceedings of the
Cambridge Philological Society, 195, 1969, bls. 7–29; Rainer Thiel, Simplikios und das
Ende der neuplatonischen Schule in Athen, Stuttgart: Franz Steiner Verlag, 1999.