Ritið : tímarit Hugvísindastofnunar - 01.01.2011, Page 84
84
SvERRIR JAkObSSON
guðfræði í París og lög í Bologna. Sendimaður páfa, kardínálinn Robert
Courçon, setti háskólanum reglur 1215 og var ætlunin að tryggja sjálfstæði
hans gagnvart kanslara dómskólans í Frúarkirkju. Sjálfstæði háskólans í
París var svo ítrekað með páfabullunni parens scientiarium árið 1231. Því
má segja að Parísarháskóli eigi páfanum að þakka áframhaldandi tilvist
sem sjálfstæð stofnun. Sendimaður páfa kom líka við sögu þegar háskólinn
í Oxford varð til sem sjálfstæð stofnun árið 1215.14
Gildi háskólamanna, ýmist gildi kennara eða nemenda, nefndust uni
versitas og ráku þau skólana. Sjálft háskólanámið kallaðist studium generale.
Þessar menntastofnanir veittu gráður sem áttu að tryggja rétt til kennslu
alls staðar (lat. ius ubique docendi). Slíkan rétt fengu þær með páfabullu eða
úr hendi keisara hins heilaga rómverska ríkis.15 Sumir háskólarnir voru
beinlínis stofnaðir af þessum ráðamönnum, t.d. stofnaði keisarinn háskóla
í Padua árið 1224 en páfinn stofnaði háskólann í Toulouse 1229.16
Háskólar sem urðu til í kjölfarið voru staðlaðar stofnanir. Allir skil-
greindu þeir háskólanám með svipuðum hætti, sem nám sem skipt væri í
fjórar deildir að hámarki. Háskólakennsla á miðöldum snerist fyrst og
fremst um guðfræði og lög, en í minna mæli um læknisfræði. Kennsla í
heimspeki var svo undirstöðunám fyrir kennslu í hinum greinunum þrem-
ur. Þessar fjórar deildir voru ekki við alla háskóla en háskólanám var hins
vegar alls staðar bundið við þessi fræði. Þessi skilgreining á akademísku
námi útilokaði allar aðrar; öll vísindi urðu að falla að kerfinu. Þannig þró-
uðust fræðigreinar eins og sagnfræði, náttúrufræði og samfélagsfræði sem
hliðarvísindi við þetta almenna menntakerfi; fræði sem vissulega var hægt
að leggja stund á en án þess að akademískar prófgráður væru hluti af þeirri
iðju.
Hægt er að færa rök fyrir því að evrópskt samfélag á miðöldum hafi
verið góður jarðvegur fyrir sjálfstjórnarstofnanir á borð við háskóla. Þar
þrifust sjálfstæðar valdastofnanir af ýmsu tagi hlið við hlið. Alls staðar var
kaþólska kirkjan keppinautur ríkisvaldsins en einnig voru til sjálfstæð
valdakerfi sem voru minni í sniðum; lénsmenn voru sjálfstæðir gagnvart
konungum, borgir gagnvart lénsmönnum og innan borganna þrifust sjálf-
14 Sjá nánar Richard W. Southern, „From Schools to University“, The History of the
University of Oxford, 1: The Early Oxford Schools, ritstj. J. I. Catto, Oxford: Claren-
don Press, 1984, bls. 1–36.
15 Rashdall, The Universities of Europe in the Middle Ages I, bls. 1–24.
16 Alan B. Cobban, The medieval universities: Their development and organization,
London: Taylor & Francis, 1975, bls. 25–26.