Ritið : tímarit Hugvísindastofnunar - 01.01.2011, Page 92
92
GuðNI ELíSSON
lokin lögðu fyrirlesararnir áherslu á hve brýnt væri að leita allra leiða til að
draga úr sóun á orku. Framtíðin væri í húfi og konur gætu gengið fram
með góðu fordæmi.
Málflutningur frummælenda, sem og flestra fundargesta, kom ekki á
óvart enda fyrirsjáanlegt að mjúkum náttúrugildum yrði haldið á lofti á
málþingi um kyn og loftslagsbreytingar. Þó komu upp forvitnileg augna-
blik í umræðunni eins og þegar kona í hópi fundargesta hélt því fram að
það stríddi gegn sjónarmiðum kynjajafnréttis að taka strætisvagn í vinn-
una. Af máli konunnar mátti ráða að hún gerði sér fyllilega grein fyrir að
brýnt væri að sem flestir notuðu almenningssamgöngur. Hún taldi þó jafn-
réttissjónarmið vega þyngra en umhverfisrök, og að þessi sjónarmið væru
eftirfarandi: Karlar sóuðu talsvert meiri orku en konur og því væri ólíklegt
að þeir stigju upp í strætisvagn í nafni almannaheilla. Vegna þess að þeir
notuðu fremur einkabíl en almenningssamgöngur væru þeir fljótari en ella
í og úr vinnu og gætu dvalið lengur á vinnustað. Það gerði þá að eftirsókn-
arverðari starfskröftum en þær konur sem nýttu sér strætisvagna. „Hvers
vegna,“ spurði konan, „ætti ég sem femínisti að auka á kynjamisréttið með
því að taka strætó í nafni sameiginlegra hagsmuna, þegar það er augljós-
lega fyrst og fremst hagur karlanna að ég geri það?“
Með rökum sínum vék fundargesturinn sér fimlega undan ábyrgð sinni
á að draga úr koltvísýringsmengun. Hún treysti sjálfsmynd sína sem fem-
ínista og lýsti því yfir að í þessu máli, sem öðrum, yrði hún að vera sjálfri
sér samkvæm. Konan áréttaði mikilvægi kynjaðrar greiningar með dæmi
sínu, því að vissulega þarf að auka á meðvitund karlmanna um almennings-
samgöngur og án þátttöku þeirra næst enginn árangur í aðgerðum gegn
hlýnun jarðar. Þó voru veikleikarnir í röksemdafærslu hennar líka augljós-
ir. Sigur karlveldisins er skammvinnur ef hann leiðir til alvarlegra lofts-
lagsbreytinga og hvernig er hægt að færa kynjafræðileg rök fyrir því að
gera ekkert ef afleiðingin af aðgerðaleysinu er sú að konum vegnar enn
verr en áður? Bjó kannski eitthvað annað en femínísk sannfæring að baki
orðum konunnar? Vildi hún ekki viðurkenna að hún efaðist um loftslags-
breytingar, af því að það hefði líklega vakið undrun og jafnvel hneykslan í
þeim hóp sem þarna kom saman? Hafði hún ekki áhyggjur af framtíðinni
eftir sinn dag? Eða nennti hún kannski bara ekki að taka strætó í vinnuna
eins og svo margir Íslendingar.
Hver sá sem hristir höfuðið yfir tvöfeldninni sem greina má í orðum
konunnar ætti þó að staldra við og líta í eigin barm. Í samfélagi sem reiðir