Ritið : tímarit Hugvísindastofnunar - 01.01.2011, Side 96
96
GUÐNI ELÍSSON
mættu ekki eiga sér stað og var orkusóun í framtíðinni litin neikvæðum
augum. Að sama skapi voru menn jákvæðir í garð framtíðar þar sem farið
var sparlega með orku. Það skaut því skökku við að svo til enginn í úrtak-
inu var til í að leggja sitt af mörkum til þess að gera björtu framtíðina að
veruleika.9
Verkefni rannsóknarinnar var að ‚kortleggja‘ þær afsökunarleiðir sem
menn notuðu til þess að réttlæta þörf sína fyrir að breyta rangt. Ein-
staklingarnir í úrtakinu reyndu að sefa sektarkennd sína. Þeir gerðu sig að
þolendum fremur en gerendum og ýttu þannig undir fórnarlambsstöðu
sína og gremju í garð aðhaldsaðgerða. Viðmælendurnir tíndu margt til.
Þeir neituðu því að þeir bæru nokkra ábyrgð á ástandi loftslagsmála, sögð-
ust ekki sekir um neitt, báru við þekkingar- og valdaleysi, sneru vörn í sókn
og skömmuðu þá sem báru upp spurningarnar. Auk þess vörðu þeir sig
með ýmiss konar átyllum, eða sögðust eiga rétt á þægindum og létu eins og
framtíðin væri ekki þeirra mál. Loks sögðust þeir vernda umhverfið eftir
öðrum leiðum.10
Í afneitunarferlinu má iðulega greina afstöðu sem skilgreind hefur
verið sem „harmleikur almenningsins“ (e. tragedy of the commons). Harm-
leikurinn birtist í því að einstaklingarnir breyta í þágu eiginhagsmuna eins
og þeir blasa við hverjum og einum, frekar en í þágu heildarhagsmuna.
Afleiðingin af þessu hegðunarmynstri er hinsvegar á endanum hörmuleg
fyrir alla. Vandinn er sá að einstaklinginn virðist vanta hvata til að breyta í
þágu heildarhagsmuna jafnvel þó að þeir séu langtímahagsmunir hans
sjálfs. Í fyrsta lagi getur hann ekki treyst því að aðrir geri það líka og í öðru
lagi myndi hann græða enn meira á að gera það ekki, ef flestir aðrir létu
stjórnast af heildarhagsmunum.11
Vistfræðingurinn sem skilgreindi vandann fyrst í þekktri grein árið
1968, Garrett Hardin, tekur sem dæmi hvernig ofbeit eyðileggur ræktar-
lönd. Hver hirðir eða bóndi getur bætt líf sitt með því að bæta við nýrri
geit eða kú, en ef sérhver hirðanna gerir það hrynur ræktarlandið og allir
svelta. Sá sem bætir við hjörð sína gerir það á kostnað hinna, sem reyna að
9 Stoll-Kleemann o.fl., „The psychology of denial concerning climate mitigation
measures“, bls. 109–110.
10 Sama rit, bls. 112. Hér vísar svissneska rannsóknin í eldri rannsóknarniðurstöður.
Sjá Joachim Schahn, „Die Rolle von Entschuldigungen und Rechtfertigungen für
umweltschädigendes Verhalten“, Psychologie für den Umweltschutz, ritstj. J. Schahn
og T. Giesinger, Weinheim: Beltz/Psychologie Verlags Union, 1993, bls. 51–61,
hér bls. 59–60.
11 Almenning má skilgreina sem auðlind sem hópur einstaklinga nýtir í sameiningu.