Ritið : tímarit Hugvísindastofnunar - 01.01.2011, Page 120
120
GuðNI ELíSSON
4) Pólitísk rök.74 ýmsir hagsmunahópar reyna að grafa undan vísindalegu
gildi loftslagsrannsókna, m.a. með því að fullyrða að öll umræða um
aðgerðir sé aðeins sósíalismi í dularbúningi, sett fram í þeim tilgangi að
efla ríkisvaldið og vinna gegn framtaki einstaklingsins. Það kemur líklega
fáum á óvart að það séu fyrst og fremst einstaklingar á hægri væng stjórn-
málanna sem reyna að verja aðgerðaleysi sitt með pólitískum rökum. Það
væri ábyrgðarlaust að færa stjórnvaldið í hendur vinstri manna, eins og
óhjákvæmilega myndi gerast ef ríkið tæki að skipta sér af losun gróður-
húsalofttegunda. Tilgangur græningja er samkvæmt þessari kenningu fyrst
og fremst að ná völdum, en þeir skilja að sá sem stýrir úthlutun orkunnar í
samfélaginu stýrir samfélaginu öllu.75 Handhæg leið til þess að átta sig á
pólitísku umfangi afneitunariðnaðarins er að skoða hverjir gefa fyrst og
fremst út þær bækur sem draga í efa gildi umhverfisverndar. Í nýlegri
bandarískri rannsókn sést að af þeim bókum sem komu út á árunum 1972
til 2005, en þær voru alls 141, voru yfir 92% tengdar hugveitum og stofn-
unum yst á hægri armi stjórnmálanna.76
74 Um pólitískt andóf gegn loftslagsvísindum fjalla ég í löngu máli í greinunum „Nú
er úti veður vont: Gróðurhúsaáhrif og íslensk umræðuhefð“, sérstaklega á bls.
18–39; og „Efahyggja og afneitun: Ábyrg loftslagsumræða í fjölmiðlafári samtím-
ans“, Ritið 2/2008, bls. 77–114.
75 Bók Steve Milloy, Green Hell: How Environmentalists Plan to Control Your Life and
What You Can Do to Stop Them, Washington: Regnery Publishing, 2009, er ein
besta samantekt sem fyrirfinnst á hinum pólitísku rökum. Milloy heldur því fram
að umhverfisverndarhreyfingar ætli sér að leggja markaðsfyrirkomulagið í rúst,
koma á samyrkjubúskap og endurúthluta auðmagninu. Umhverfisverndarsinninn
er á móti hagvexti og hann þröngvar sér inn á hið persónulega svæði einstakling-
anna með því að hafa skoðun á barneignum og rekstri bifreiða (sjá sérstaklega kafl-
ann „Power is Power“, bls. 33–48 og undirkaflann „The Hidden Agenda“, bls.
46–48). Hægt er að taka undir ýmislegt í greiningu Milloys á óhjákvæmilegum
niðurstöðum aðhaldsaðgerða. Það sem gerir bók hans fyrst og fremst ónothæfa í
umræðunni er að Milloy hafnar með öllu þeim möguleika að maðurinn hafi áhrif
á hlýnun jarðar með losun koltvísýrings eða að koltvísýringur sé yfirhöfuð gróð-
urhúsalofttegund (sjá Milloy, bls. 5). Öll rök Milloys hvíla á þessari frumforsendu
og ef henni er hafnað veikir það óneitanlega annan málflutning hans.
76 Af 141 bók voru 130 bækur tengdar slíkum hugveitum. Einnig er forvitnilegt að
eftir því sem líður á tímabilið eykst mjög útgáfa bóka þar sem forsendur umhverf-
isverndar eru dregnar í efa. Á áttunda áratug liðinnar aldar eru þær 6, á níunda
áratugnum 14, alls 72 á þeim tíunda og 49 á árunum 2000 til 2005. Sjá: Peter J.
Jacques, Riley E. Dunlap og Mark Freeman, „The organisation of denial: Con-
servative think tanks and environmental scepticism“, Environmental Politics, júní
2008, 17:3, bls. 349–385, hér bls. 360 og 361. Naomi Oreskes og Erik M. Conway
vísa stuttlega til greinarinnar í bók sinni Merchants of Doubt, bls. 236.